Alonso ánægður að ná í lokalotu

Alonso leggur í aksturslotu í Sepang.
Alonso leggur í aksturslotu í Sepang. ap

Fernando Alonso hjá Renault var ánægður að tímatökunum í Sepang loknum yfir því að komast alla leið í lokalotuna, ólíkt því sem hann upplifði í Melbourne fyrir viku.

Alonso hvatti liðsmenn sína til að bæta tímatökugetu bílsins eftir Melbourne til að geta keppt um fremstu sæti í mótum. Þar varð hann í fjórða sæti í kappakstrinum en í aðeins 12. sæti í tímatöku.

Hann var því að vonum ánægður að komast í lokalotuna í dag en þar hafnaði hann í níunda sæti. Hann sagði það skyggja að vísu á, að hann hafi tafist í lokatilraun sinni vegna hæggengra bíla á innhring.

„Við náðum fyrsta markmiði helgarinnar í dag, sem var að komast í lokalotu tímatökunnar. Því getum við einbeitt okkur að næsta markmiði, sem er að bæta keppnishraðann og ljúka móti í stigasæti.

Ég hefði getað orðið framar er ég var með Heidfeld á fljúgandi en aðrir bílar fóru þá hægt og það háði mér aðeins, sem er miður.

Ég er viss um að kappaksturinn á morgun verður áhugaverður og vona að við rötum upp í stigasætin, eins og í Melbourne. Nú einbeitum við okkur að undirbúningi morgundagsins,“ sagði Alonso eftir tímatökurnar.

Liðsfélaga hans Nelsinho Piquet gekk betur í dag en í Melbourne fyrir viku. Komst í aðra umferð og hafnaði í 13. sæti. Kvaðst tiltölulega sáttur eftir framfarir á æfingum í gær og dag.

„Auðvitað þarf ég enn að bæta mig, en ég er ekki mjög langt á eftir liðsfélaga mínum. Ég get vart beðið eftir því að sjá hvernig kappaksturinn þróast á morgun. Takmarkið er að komast alla leið og vinna stig,“ sagði Piquet.

Alonso og Piquet hjá Renault í Sepang í morgun.
Alonso og Piquet hjá Renault í Sepang í morgun. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert