Lewis Hamilton hjá McLaren segir fjórða sætið í tímatökunum í Sepang vera afleiðingu þess að hann hafi ekki náð nógu góðum tímahring. Hann beið lægri hlut fyrir nýjum liðsfélaga sínum, Heikki Kovalainen, sem varð þriðji og var 0,9 sekúndum lengur með hringinn en ráspólshafinn Felipe Massa.
Hamilton, sem ók til sigurs af ráspól sl. sunnudag í Melbourne, sagði að aðstæður í Sepang hefðu í engu verið óvenjulegar að frátöldum skorti á rásfestu og hægari bílum á úthring hans.
„Rásfestan virtist minni í lokalotunni og ég átti í vandræðum að því leyti. Það var líka erfitt að finna autt svæði vegna umferðar sem hafði áhrif á upphitun bremsanna og dekkin,“ sagði Hamilton.
„Í hreinskilni sagt vantaði fullkomnun hjá mér í dag og ég mun skoða gögn úr akstrinum til að átta mig á hvernig gera má betur á morgun. Við verðum að vera jákvæðir þar sem við erum eftir sem áður í góðri stöðu og allt getur gerst í keppninni,“ bætti Hamilton við.
Dennis sáttur og segir sína menn munu veita Ferrarið harða keppni
Liðsstjórinn Ron Dennis kom í dag til Sepang en hann þurfti að sinna erindum í Englandi í vikunni og bjóst ekki við öðru en að missa af kappakstrinum.
Dennis sagðist ekkert vonsvikinn yfir niðurstöðu tímatökunnar. Hann sagðist sannfærður um að hans menn gætu veitt ökuþórum Ferrari keppni á morgun.