Massa: Titilkeppnin hefst á morgun

Massa fékk koss að launum frá konunni við lok tímatökunnar …
Massa fékk koss að launum frá konunni við lok tímatökunnar í Sepang. ap

Felipe Massa sagði eftir tímatökurnar í Sepang að keppni hans um heimsmeistaratitil ökuþóra hæfist í kappakstrinum á morgun. Hristi hann vandræði mótsins í Melbourne um síðustu helgi af sér og vann ráspólinn í Sepang í morgun.

Massa er sjöundi ökumaður Ferrari til að vinna ráspól í Malasíukappakstrinum frá því keppni hófst þar fyrir áratug. Hann hafði mikla yfirburði á næsta mann, liðsfélaga sinn Kimi Räikkönen, sem var hálfri sekúndu lengur með hringinn.

„Ég náði frábærum hring í lokalotunni. Átti tvo fína hringi, báða mistakalausa,“ sagði Massa. „Mér tókst ekki mjög vel upp í annarri lotu og átti í vandræðum með rásfestu. Ég bremsaði þá of snemma fyrir 14. beygju, gerði smá heimskupör, en náði að láta allt smella saman í lokalotunni,“ bætti hann við.

Massa sagði að betur gæti Ferrari ekki náð sér eftir ófarir í Melbourne en vinna tvö fremstu sætin á rásmarki í Sepang. Í Melbourne komst hvorugur ökuþóra Ferrari í mark og báðir snarsneru bílunum í miðri keppninni.

„Keppnin um heimsmeistaratitlana hefst nú, það sem gerðist í síðasta móti var ótrúlegt, því bjuggumst við aldrei við. Vonandi eru allir erfiðleikar nú að baki,“ sagði Massa.

Massa (fyrir miðju) fagnar ráspólnum í Sepang ásamt Finnunum Kovalainen …
Massa (fyrir miðju) fagnar ráspólnum í Sepang ásamt Finnunum Kovalainen (t.v.) og Räikkönen. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert