Felipe Massa hjá Ferrari segist afar svekktur með byrjun sína á vertíðinni í ár, en hann hefur ekki komist í mark í fyrstu tveimur mótunum. Hann segist vonast til að eiga eftir að bæta fljótt fyrir það.
Massa hóf keppni af ráspól og virtist á leið til öruggs annars sætis á eftir liðsfélaga sínum Kimi Räikkönen er hann missti stjórn á bílnum á 31. hring, lenti út úr brautinni og festist í malargildru.
Hann féll einnig úr leik í Melbourne fyrir viku vegna vélarbilunar.
„Vissulega er ég svekktur, þetta er ekki sú byrjun á keppnistíðinni sem ég vænti. Ég er miður mín yfir því sem gerðist,“ sagði Massa eftir keppnina.
„Við þurfum bara að einbeita okkur, það eru enn 16 mót eftir og við þurfum að vera öflugir í næstu mótum. Niðurstaðan er svekkjandi því öruggur tvöfaldur sigur blasti við í dag. Við þurfum að komast yfir þetta,“ sagði Massa.
Hann sagðist ekki skilja hvers vegna bíllinn snarsnerist og kvaðst engar skýringar hafa á því. Vildi ekki játa að það væri vegna skorts á gripstýringu er útheimtir meiri færni af hálfu ökuþóranna.