Räikkönen einráður í Sepang

Räikkönen sigri hrósandi í Sepang.
Räikkönen sigri hrósandi í Sepang. ap

Kimi Räikkönen hjá Ferrari var í þessu að vinna öruggan sigur í Malasíukappakstrinum. Súrsætur árangur fyrir Ferrari því Felipe Massa féll úr leik en lengi vel stefndi í tvöfaldan yfirburðasigur liðsins. Annar varð Robert Kubica á BMW sem er hans besti árangur og þriðji Heikki Kovalainen á McLaren.

Með sigrinum blandar Räikkönen sér strax í keppnina um heimsmeistaratitil ökuþóra. Það styrkti stöðu hans, að Lewis Hamilton hjá McLaren, sigurvegari síðasta móts, varð aðeins fimmti. Því munar á þeim aðeins þremur stigum, 14:11.

Nick Heidfeld er með sömu stigatölu og Räikkönen eftir tvö mót og Kovalainen með 10. Kubica skammt þar á eftir með átta stig.

Massa slapp aldrei burt

Massa hóf keppni af ráspól og þeir Räikkönen háðu jafna og tvísýna keppni um forystu inn í fyrstu beygju. Heimsmeistarinn vék fyrir félaga sínum sem var á léttari bíl. Massa náði aldrei að hrista Räikkönen af sér, var með hann á hælum sér og tapaði forystunni til hans í fyrra þjónustustoppi, sem heimsmeistarinn tók tveimur hringjum seinna.

Eftir 20 hringi af 56 var aldrei um neina keppni um sigur að ræða og aðeins spurning hvort Ferrarifákarnir entust alla leið, ólíkt því sem gerðist í Melbourne fyrir viku. Þeir hikstuðu aldrei og voru í sérflokki, en akstursmistök Massa í hraðri áttundu beygjunni á 30. hring urðu þess valdandi að hann missti rásfestu að aftan. Bíllinn skaust útundan sér, snerist, flaug útaf og festist í jaðri malargryfju. Fyrir vikið varð Ferrari af tvöföldum yfirburðasigri í Sepang.

Röðin réðst í fyrstu beygju

Úrslitin réðust að miklu eftir sprettinn inn í fyrstu beygju. Hamilton og Kovalainen unnu sig upp um mörg sæti, Heidfeld og Alonso byrjuðu vel en lokuðust fyrir aftan Jarno Trulli sem laumaði sér fram úr þeim á leið inn í aðra beygju.

Kubica var allan tímann einn og yfirgefinn, fyrst í þriðja sæti og síðar öðru. Var hann vel á undan næstu mönnum en nokkru á eftir ökumönnum Ferrari. Hefur hann aldrei komist jafn hátt á verðlaunapall og aðeins einu sinni staðið þar áður. Þeir Heidfeld sýndu að mikið býr í BMW-bílnum því þýski ökuþórinn átti hraðasta hring kappakstursins.

Misheppnuð dekkjaskipti hjá Hamilton - Tveir Finnar á palli

Hamilton háði stöðukeppni við Mark Webber á Red Bull fram að fyrsta stoppi og komst aldrei fram úr. Það hugðist hann gera í fyrsta stoppi en þá tókst ekki betur til en svo að skipta um hægra framhjól, að hann tapaði um 10 sekúndum meðan reynt var að losa það og koma nýju á.

Slík vandamál komu ekki upp er Kovalainen stoppaði stuttu seinna, en hann komst úr sjöunda sæti í það fjórða í fyrra stoppi sínu. Færðist svo í þriðja við brottfall Massa. Voru því tveir Finnar á verðlaunapalli en slíkt hefur ekki áður gerst í formúlu-1.

Jarno Trulli ógnaði Kovalainen um miðbik kappakstursins en ekki nóg til að komast fram úr. Hann gat ekki haldið ferðinni út í gegn og varð að verja stöðu sína á lokahringjunum. Tókst að halda ört sækjandi Hamilton fyrir aftan sig sem unnið hafði sig loks fram úr Webber í seinna dekkjastoppi.

Afleitur dagur hjá Williams

Annað mótið í röð fékk Rubens Barrichello hjá Honda refsistopp fyrir að aka of greitt í bílskúrareinni.

Williamsliðið átti afleitan dag, aðeins viku eftir að fagna fyrsta pallsæti Nico Rosberg í Melbourne. Rosberg rakst utan í landa sinn Timo Glock hjá Toyota á fyrsta hring, braut eigin framvæng og batt enda á kappakstur Glock.

Úrslit kappakstursins í Sepang

Staðan í stigakeppni ökuþóra og bílsmiða

Kubica náði sínum besta árangri með öðru sæti í Sepang.
Kubica náði sínum besta árangri með öðru sæti í Sepang. ap
Räikkönen veifar áhorfendum á heiðurshring fyrir keppnina.
Räikkönen veifar áhorfendum á heiðurshring fyrir keppnina. reuters
Kovalainen komst á pall í annað sinn á ferlinum.
Kovalainen komst á pall í annað sinn á ferlinum. mbl.is/mclarenf1
Massa tókst ekki að hrista Räikkönen af sér.
Massa tókst ekki að hrista Räikkönen af sér. ap
Liðsmenn Ferrari fagna Räikkönen í endamarki.
Liðsmenn Ferrari fagna Räikkönen í endamarki. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert