Alonso er jarðbundinn.
Alonso er jarðbundinn. ap

Fernando Alonso segir að Renault verði ekki með í toppslagnum í formúlu-1 í ár. Úrslitin í Sepang í Malasíu sýni hvar það standi en þar varð hann áttundi í mark. Hann býst ekki við neinum stórstökkum fram á við af hálfu Renault í ár. 

Alonso sótti hart í Sepang en uppskar aðeins eitt stig. „Þetta fór mikið til eins og við bjuggumst við. Töldum að erfitt yrði að verða meðal átta fremstu og það hefði ekki gerst nema fyrir brottfall Felipe Massa. Þannig  er raunveruleikinn - ekkert óvænt,“ sagði Alonso við spænska íþróttablaðið As.

„Í venjulegum kappakstri, með engu brottfalli verðum við níundu í tímatökum og áttundu í keppninni. Það er allt og sumt sem við getum gert okkur vonir um við eðlilegar aðstæður.

Við fáum nýjungar í bílinn fyrir Barcelona en hið sama á við um önnur lið svo keppnin verður tiltölulega eins," bætti Alonso við.

Hann segir það ætíð hafa verið svo að bílarnir sem fyrstir eru í tveimur til þremur fyrstu mótum ársins verði í toppslagnum það sem eftir er. Fátt muni koma á óvart í ár í þeim efnum.

Vísar orðrómi um Ferrariför á bug

Alonso gaf jafnframt lítið fyrir orðróm þess efnis sem bendlar hann við  Ferrari á næsta ári. Slíkar vangaveltur segir hann afleiðingar erfiðrar byrjunar Massa sem fallið hefur úr leik í tveimur fyrstu mótum ársins.

„Það er of snemmt að tala um tilfærslur og kjaftasögur. Massa hefur átt tvær slæmar keppnir með mistökum og það hefur ýtt hrundið af stað vangaveltum um [Sebastian] Vettel og mig. Þess var að vænta, en er of snemmt um að segja,“ sagði Alonso.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert