Mosley í vondum málum

Max Mosley, forseti FIA.
Max Mosley, forseti FIA. ap

Alþjóðaakstursíþróttasambandið (FIA) hefur ekkert wi jað tjá sig um staðhæfingar breska slúðurblaðsins News of the World  um að forseti þess hafi átt í „kvalalostakynsvalli“ með fimm hórum í London. Birti blaðið myndband á heimasíðu sinni af svallinu. Þrýst er á Mosley að segja af sér.

Að sögn blaðsins fólst hluti svallsins í hlutverkaleik sem snerist m.a. um nasista og stríðsfanga. Lék Mosley ýmist foringja í útrýmingarbúðum sem hýddi konur í fangaklæðum og hafði við þær mök eða fanga er sætti húðstrýkingum. Hafa samtök gyðinga brugðist hart við því og krafist afsagnar Mosley.

Karen Pollock, framkvæmdastjóri Holocaust Educational Trust, sagði við breska blaðið The Times: „Þetta er viðbjóður og gjörsneytt allri virðingu manna. Það er erfitt að trúa slíku af hálfu manns í slíkri áhrifa- og valdastöðu. Það er stórlega fram af mér gengið.“

Stephen Smith, framkvæmdastjóri Helfararmiðstöðvarinnar bætir við: „Þar sem herra Mosley hefur fordæmt kynþáttafordóma í akstursíþróttum ætti hann að hegða sér í samræmi við þau gildi sem hann hefur haldið á lofti. Þetta er móðgun við milljónir fórnarlamba, afkomendur og fjölskyldur þeirra. Honum ber að biðjast afsökunar og segja af sér.“

Málið hefur valdið hneykslan aðila sem tengjast formúlu-1. Stirling Moss, ein frægasta kappaksturshejta Breta, sagði við The Times: „Ég sé ekki hvernig hann getur haldið áfram. Vonandi verður honum það fært, því mér finnst hann standa sig vel í starfi. Ég geri ráð fyrir því að það sem gerist bak við luktar dyr sé hans einkamál en þegar slíkt kemur fram í dagsljósið eins og þetta  . . . er manni stórlega brugðið.“

Ecclestone segir ástæðulaust að Mosley segi af sér

Ekki eru allir á því að Mosley hafi komið óorði á starf forseta FIA.  Bernie Ecclestone, náinn samverkamaður hans um áratugaskeið, segist undrandi en ekki á því að Mosley verði að segja af sér þess vegna.

„Ég hef þekkt hann ógurlega lengi. Hefði einhver sagt mér af þessu án þess að geta sýnt mér sönnunargögnin hefði ég átt erfitt með að leggja trúnað á söguna. En ef göngum út frá því að þetta sér rétt þá er það einkamál fólks hvað það gerir í einkalífinu.

Í hreinskilni sagt hef ég enga trú á að þetta bitni á íþróttinni. Þekkjandi Max gæti þessi uppákoma allt eins verið brandari,“ segir Ecclestone.

Martin Brundle, fyrrverandi ökuþór og formúluskýrandi breskrar sjónvarpsstöðvar, er ekki sammála Ecclestone. Við Times segir hann: „Þetta er ekki viðeigandi hegðan af yfirmanni heimssambands á borð við FIA.“ Mosley stefndi Brundle fyrir meiðyrði í fyrrahaust fyrir gagnrýni á málsmeðferð hans gagnvart McLaren í njósnamáli í fyrrasumar.

Áforma lögsókn 

Talsmaður FIA segir að hvað sambandið varði sé hér um mál að ræða er varði Mosley og viðkomandi blað. Hann segir lögmenn Mosley vera í sambandi við blaðið vegna málsins. Íhuga þeir að sækja blaðið til saka fyrir að brjóta gegn friðhelgi einkalífs Mosley.

Mosley er sonur Oswald Mosley, sem stofnaði Fasistasamband Bretlands á millistríðsárunum og fékk Adolf Hitler sem heiðursgest í brúðkaup sitt, en það fór fram á heimili Jósefs Göbbels. Mosley er 67 ára og hefur verið forseti FIA frá 1993.

Bernie Ecclestone (t.v.) og Max Mosley.
Bernie Ecclestone (t.v.) og Max Mosley.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert