Felipe Massa verður að bíta í það súra epli að vera settur til hliðar hjá Ferrari í kappakstri komandi helgar í Barein. Öfl sem hafa bæði tögl og hagldir innan liðsins hafa fengið Michael Schumacher til að fallast á að keppa í hans stað.
Schumacher er sagður hafa gengist inn á að keppa í aðeins þessu eina móti meðan tími er notaður til að byggja atgervi Massa upp. Hann þykir hafa misst áttir eftir brottfall úr tveimur fyrstu mótum ársins en þar segja heimildarmenn innan Ferrari hann hafa gert grunsamlegan fjölda akstursmistaka.
Jafnframt mun Massa hafa tognað í úlnlið er stýrið slóst til baka er hann ók upp á beygjubrík í Sepang í Malasíu með þeim afleiðingum að bíllinn snarsnerist. Við höggið missti hann mátt og gat ekki beitt gagnhreyfingu til að halda bílnum á brautinni. Er hann enn það máttfarinn að hann getur tæpast haldið um stýri fólksbíls og eiginkonan því verið í hlutverki hálfgerðs einkabílstjóra síðustu 10 daga.
Schumacher hefur haldið sér í góðri æfingu og m.a. sinnt tilraunaakstri fyrir Ferrari í samræmi við samninga sem leiðtogar liðsins notfæra sér nú til að kalla eftir þjónustu hans í keppni.
Búist er við að formleg tilkynning um þetta verði gefin út síðar í dag - 1. apríl.
Aths.
Þessi formlega tilkynning kom auðvitað aldrei frá Ferrari og lokaorðunum að framan ætlað að gefa lesandanum til kynna að um góðlátlegt grín væri að ræða, í tilefni dagsins - og ber að taka sem slíkt.