Félag bandarískra bifreiðaeigenda (AAA) hefur tjáð Max Mosley þá afstöðu sína að honum beri að segja af sér starfi forseta Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) vegna hneykslismála í einkalífi hans.
Mosley sætir gagnrýni úr flestum áttum en svaraði því til í gær, að hann hefði engin lög brotið með kynsvalli með fimm gleðikonum í London og hefði verið um „skaðlaust“ athæfi að ræða.
Fjöldi samtaka og einstaklinga og fyrirtæki í bílaiðnaði, sem eiga beina aðild að formúlu-1, hafa hvatt Mosley til afsagnar. Sjálfur heldur hann því fram að nokkur bíleigendafélög og klúbbar styðji hann til áframhaldandi formennsku.
AAA hefur gengið einna lengst og segir það eina ásættanlega endi málsins að Mosley stigi upp af forsetastóli.
„Nýlegir atburðir sem tengjast forystu FIA hafa verið mjög sársaukafullir og vandræðalegir. Þótt hér sé um einkamál að ræða í augum einhverra þá er tjónið fyrir ímynd FIA og aðildarsamtök þess augljóst. Svo samtök - og forseti þeirra - geti haft það siðferðislega vald sem þörf er á til að koma fram fyrir hönd milljóna bíleigenda og fara með yfirstjórn akstursíþrótta margra verða þeir að temja sér æðsta siðgæði í hegðun og framkomu.
AAA gerir sér grein fyrir því að herra Mosley hefur helgað mörg ár af lífi sínu til framfara í bílsamgöngum og akstursíþróttum. Eftir vandlega umfjöllun hefur AAA hins vegar tjáð Mosley, að það þjónaði hagsmunum allra viðkomandi best, að hann segði af sér,“ segir í tilkynningu bandarísku bifreiðafélaganna.