Ferrariliðið glímir við „upplýsingaleka“ úr bækistöðvum sínum í Maranello á Ítalíu. Nú stendur yfir innanhússrannsókn á þeim bæ vegna upplýsinga sem láku út um nýja trjónu sem liðið prófaði í fyrsta sinn í gær á keppnisbílnum.
Aldo Costa tæknistjóri Ferrari staðfestir við svissneska blaðið Blick í dag, að rannsókn sé í gangi vegna gagnaleka úr bílsmiðju liðsins. Nokkrum vikum áður en trjónan kom fyrir sjónir manna utan Ferrari birtust frásagnir af henni og jafnvel teikningar.
Costa segir við Blick að hann hafi „fyllst skelfingu“ við að sjá fréttirnar um trjónuna. Hún er með gati ofan á og inntaksopum að neðanverðu. Tilgangur hönnunarinnar er að nýta háþrýsting undir trjónunni til að bæta loftflæði um bílinn til afturvængja.
Ítalska vikuritið Autosprint skýrði fyrst frá „holóttu“ trjónunni í febrúar og birti teikningar með frétt sinni. Costa segir að „örfáir“ aðilar hafi á því stigi haft vitneskju um nýjungina og því hljóti svo að vera að fréttin endurspegli leka úr bílsmiðjunni.
Njósnamál settu mark sitt á formúlu-1 í fyrra en þá var einn af helstu tæknimönnum Ferrari, Nigel Stepney, sakaður um að hafa laumað tæknigögnum um 2007-bíl Ferrari til aðalhönnuðar McLaren.
Stepney bar við sakleysi en McLaren var dæmt í þunga fjársekt, 100 milljónir dollara, og sviptingu allra stiga í keppni bílsmiða, vegna málsins.
Stepney hefur ekki starfað hjá Ferrari í rúmt ár en ljóst þykir að þrátt fyrir það hafi gagnaleki úr bílsmiðju liðsins haldið áfram.