Alonso fljótastur í Barcelona

Alonso í Barcelona í dag með nýjungar í yfirbyggingu Renaultins.
Alonso í Barcelona í dag með nýjungar í yfirbyggingu Renaultins. reuters

Endurbætur á Renaultbílnum virðast ætla gefa góða raun ef marka má árangur Fernando Alonso við bílprófanir í Barcelona í dag. Setti hann langbesta tíma dagsins og var aðeins um tíunda úr sekúndu frá besta  tíma vikunnar, sem Felipe Massa setti á Ferrri í fyrradag.

Alonso var með slétt dekk undir bílnum er hann setti sinn besta tíma, rétt eins og Massa í fyrradag. Næsthraðast ók Michael Schumacher sem sneri aftur til starfa fyrir Ferrari. Ók hann allan daginn á mismunandi gerðum af sléttum dekkjum en var samt fjarri tíma Alonso. Reyndar var bíllinn uppsettur samkvæmt straumfræði- og loftaflsreglum næsta árs.

Alonso ók á sléttum dekkjum fyrir hádegi en raufuðum eftir það. „Það var gaman að reyna sléttu dekkin, þau gefa gott veggrip,“ sagði hann.

Og heimsmeistarinn fyrrverandi var ánægður með endurbætur sem gerðar hafa verið á Renaultbílnum að þessu sinni. „Þetta var góður dagur og ég er ánægður með framfarir bílsins. Við þurfum enn að halda áfram að bæta hann því keppinautarnir hafa bætt sig líka. Það er vandasamt að segja hvar við stöndum í samanburði við þá,“ sagði Alonso.

Bíll Force India, Máttar Indlands, virðist taka miklum framförum þessa dagana því Adrian Sutil setti þriðja besta tímann í dag. Rubens Barrichello varð fljótastur á Hondu í gær en í dag setti hann aðeins sjötta besta tímann.

Jarno Trulli var við störf fyrir Toyota og varði deginum í að prófa uppsetningar með tilliti til Spánarkappakstursins eftir 10 daga. Einnig prófaði hann nýja íhluti í yfirbyggingu bílsins.

Lewis Hamilton, Mark Webber, Jarno Trulli og Sebastien Bourdais notuðu einungis raufuð dekk frá morgni til kvölds. Robert Kubica lenti út úr brautinni og hafnaði á öryggisvegg en tjón varð lítið á bílnum.

Niðurstaða akstursins í Barcelona í dag varð sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Tími Hri.
1. Fernando Alonso Renault 1:18.483 100
2. Michael Schumacher Ferrari 1:19.323 83
3. Adrian Sutil Force India 1:19.424 102
4. Robert Kubica BMW 1:19.785 112
5. Nico Rosberg Williams 1:19.841 65
6. Rubens Barrichello Honda 1:19.920 141
7. Lewis Hamilton McLaren 1:20.591 102
8. Sebastien Bourdais Toro Rosso 1:20.715 71
9. Mark Webber Red Bull 1:20.849 87
10. Jarno Trulli Toyota 1:20.867 90
Alonso í Barcelona í dag, 16. apríl.
Alonso í Barcelona í dag, 16. apríl. ap
Schumacher leggur af stað í aksturslotu fyrir Ferrari í Barcelona …
Schumacher leggur af stað í aksturslotu fyrir Ferrari í Barcelona í dag. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert