Barrichello orðaður við IRL

Barrichello á Hondunni í Barein.
Barrichello á Hondunni í Barein. mbl.is/hondaf1

Rubens Barrichello hefur fengið tilboð um að ljúka kappakstursferlinum í bandaríska IRL-kappakstrinum. Loku er ekki skotið fyrir að hann hafi sætaskipti við Marco Andretti, sonarson fyrrum heimsmeistara í formúlu-1.

Barrichello mun hafa staðfest við bandarísku sjónvarpsstöðina Speed TV að tilboðið sé fyrir hendi, en útbreiddasta blað Þýskalands, Bild, birti fregnina fyrst.

Samkvæmt henni eru líkur á að hann keppi fyrir  Andretti-Green liðið bandaríska á næsta ári. Samningur hans við Honda rennur út í árslok en tengsl eru milli liðanna því Honda leggur bandaríska liðinu til mótora í keppnisbíla sína.

Barrichello er 35 ára og verður um miðjan maí orðinn reynslumesti ökuþór í sögu formúlu-1, með fleiri kappakstra að baki en nokkur annar.

Hinn 21 árs Marco Andretti keppir nú fyrir Andretti-Green og mun til álita koma að hann keppi í stað Barrichello. Hann hefur þegar um 800 km að baki við bílprófanir hjá formúluliði Honda.

Faðir Marco, Michael Andretti, keppti á sínum tíma fyrir McLaren í formúlu-1 og afi ökuþórsins unga, Mario, varð heimsmeistari ökumann í formúlu-1 árið 1978.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert