Kimi Räikkönen er bjartsýnn á sína möguleika og Ferrari í Spánarkappakstrinum komandi sunnudag. Hann vonast til að vinna þriðja mótssigur Ferrari á árinu í röð í Barcelona.
Ferrari hefur unnið tvö síðustu mót, Räikkönen í Malasíu og Felipe Massa í Barein. Þeir létu einnig að sér kveða við fjögurra daga bílprófanir í brautinni í síðustu viku og virðast ætla verða öflugir í Katalóníuhringnum.
Räikkönen segir útlitið gott hjá liðinu frá Maranello. „Við stöndum vel að vígi, allt er þar í toppstandi,“ skrifar hann á heimasíðu sinni. „Sjálfum gekk mér ekki svo vel við æfingarnar í síðustu viku, en það breytir engu.
Við ættum að vera með hraða sem dugar um helgina, útlitið er gott. Ég geri ráð fyrir að Ferrari verði mjög samkeppnisfært í Barcelona. Keppnin verður tvísýn milli toppliðanna.
Öll liðin hafa bætt bíla sína fyrir Evrópumótin og það gerir allt meira spennandi. Við unnum tvö síðustu mót sem þýðir að keppinautarnir munu sækja harðar að okkur nú,“ segir Räikkönen.