Nick Heidfeld á BMW setti besta brautartímann á lokaæfingunni fyrir tímatökurnar sem fram fara í Barcelona síðar í dag. David Coulthard á Red Bull ók næsthraðast og þriðja besta tímann setti heimamaðurinn Fernando Alonso á Renault.
Heidfeld var í 19. sæti á lista yfir hröðustu hringi er hann skipti yfir á mýkri dekkinn fyrir lokahring sinn. Munaði um minna því hann skaust við það nánast af botni listans í efsta sæti.
Ökumenn Ferrari og McLaren virtust halda uppteknum hætti að aka með talsvert bensín á æfingunni. Felipe Massa og Kimi Räikkönen settu aðeins níunda og þrettánda besta tíma á Ferrarifákunum. McLarenfélagarnir Lewis Hamilton og Heikki Kovalainen urðu í 11. og 15. sæti.
Listinn yfir hröðustu hringi breyttist hratt fyrsta hálftímann en þá munaði aðeins sekúndu á besta tíma og þeim sextánda. Heimamönnum til ánægju kvað talsvert að Alonso og var hann um tíma hraðskreiðastur.
Undir lokin hafði hann sigið niður í sjöunda sæti en á lokahringnum skaust hann aftur upp og átti um síðiri þriðja besta tímann, aðeins þremur tíundu úr sekúndu á eftir Heidfeld.
Sebastien Bourdais á Toro Rosso varð óvænt sjötti en á eftir honum komu Nelson Piquet á Renault og Jenson Button á Hondu.
Mark Webber á Red Bull tókst ekki að setja tíma, bilun í bensíndælu batt endi á akstur hans áður en hann gat ekið tímahring.
Niðurstaða æfingarinnar varð sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Bil | Hri. |
---|---|---|---|---|---|
1. | Heidfeld | BMW | 1:21.269 | 19 | |
2. | Coulthard | Red Bull | 1:21.465 | +0.196 | 16 |
3. | Alonso | Renault | 1:21.599 | +0.330 | 16 |
4. | Kubica | BMW | 1:21.717 | +0.448 | 23 |
5. | Trulli | Toyota | 1:21.771 | +0.502 | 21 |
6. | Bourdais | Toro Rosso | 1:21.942 | +0.673 | 19 |
7. | Piquet | Renault | 1:21.992 | +0.723 | 18 |
8. | Button | Honda | 1:22.060 | +0.791 | 17 |
9. | Massa | Ferrari | 1:22.075 | +0.806 | 16 |
10. | Glock | Toyota | 1:22.081 | +0.812 | 23 |
11. | Hamilton | McLaren | 1:22.094 | +0.825 | 15 |
12. | Rosberg | Williams | 1:22.174 | +0.905 | 19 |
13. | Räikkönen | Ferrari | 1:22.176 | +0.907 | 18 |
14. | Nakajima | Williams | 1:22.189 | +0.920 | 16 |
15. | Kovalainen | McLaren | 1:22.220 | +0.951 | 16 |
16. | Vettel | Toro Rosso | 1:22.292 | +1.023 | 20 |
17. | Barrichello | Honda | 1:22.350 | +1.081 | 17 |
18. | Fisichella | Force India | 1:22.466 | +1.197 | 22 |
19. | Sutil | Force India | 1:22.689 | +1.420 | 21 |
20. | Sato | Super Aguri | 1:23.726 | +2.457 | 16 |
21. | Davidson | Super Aguri | 1:23.921 | +2.652 | 15 |
22. | Webber | Red Bull | 2 |