Kimi Räikkönen hjá Ferrari var í þessu að vinna ráspól spænska kappakstursins í Barcelona eftir mjög tvísýna keppni. Við gríðarlegan fögnuð heimamanna var Fernando Alonso á Renault um tíma í efsta sæti í lokalotunni er aðeins Räikkönen átti sínum hring ólokið.
Alonso segir að það lyfti sér venjulega að keppa á heimavelli vegna mikils stuðnings úr áhorfendastúkunum. Á því var engin breyting nú og var hann ákaft hvattur til dáða og eins og áhorfendur nær allir væru í Renaultbláum skyrtum.
Er þetta langbesta frammistaða Alonso í tímatökum á árinu og virðist Renaultinn hafa haft gott af þeim endurbótum sem á honum hafa verið gerðar frá síðasta móti. Athyglisvert er að Räikkönen var aðeins tæpri tíund úr sekúndu fljótari í förum.
Felipe Massa á Ferrari varð þriðji en hann vann ráspólinn og setti svo hraðasta hring á leið til sigurs í kappakstrinum í fyrra. Robert Kubica á BMW varð fjórði, sjö þúsundustu úr sekúndu á eftir Massa, en eftir fyrri tímahringinn í lokalotunni var hann í efsta sæti.
Massa var um stund í efsta sæti en í byrjun seinni tímahringja tók Lewis Hamilton á McLaren forystu.
Það dugði þó ekki lengi og varð hann á endanum fimmti, sæti á undan liðsfélaga sínum Heikki Kovalainen.
Annars var þetta eiginlega dagur Renault því auk langbesta árangurs Alonso í tímatökum á árinu komst Nelson Piquet í fyrsta sinn í þriðju umferð. Hefur hann keppni á morgun í tíunda sæti.
Honda missti naumlega af því að eiga mann meðal 10 bestu, Rubens Barrichello vantaði aðeins 65 þúsundustu úr sekúndu á að komast í lokalotuna. Félagi hans Jenson Button varð þrettándi.
Sebastien Bourdais á Toro Rosso komst í aðra umferð annað mótið í röð og sló liðsfélaga sínum Sebastian Vettel aftur við. Bílar Máttar Indlands urðu báðir meðal 10 fremstu á æfingu í gær. Annað var uppi á teningnum í dag því Giancarlo Fisichella og Adrian Sutil urðu í aðeins 19. og 20. sæti í tímatökunum.
Niðurstaða tímatökunnar varð sem hér segir og þar með rásröðin á morgun:
Röð | Ökuþór | Bíll | Lota 1 | Lota 2 | Lota 3 | Hri. |
---|---|---|---|---|---|---|
1. | Räikkönen | Ferrari | 1:20.701 | 1:20.784 | 1:21.813 | 17 |
2. | Alonso | Renault | 1:21.347 | 1:20.804 | 1:21.904 | 18 |
3. | Massa | Ferrari | 1:21.528 | 1:20.584 | 1:22.058 | 16 |
4. | Kubica | BMW | 1:21.423 | 1:20.597 | 1:22.065 | 13 |
5. | Hamilton | McLaren | 1:21.366 | 1:20.825 | 1:22.096 | 14 |
6. | Kovalainen | McLaren | 1:21.430 | 1:20.817 | 1:22.231 | 15 |
7. | Webber | Red Bull | 1:21.494 | 1:20.984 | 1:22.429 | 19 |
8. | Trulli | Toyota | 1:21.158 | 1:20.907 | 1:22.529 | 19 |
9. | Heidfeld | BMW | 1:21.466 | 1:20.815 | 1:22.542 | 20 |
10. | Piquet | Renault | 1:21.409 | 1:20.894 | 1:22.699 | 18 |
11. | Barrichello | Honda | 1:21.548 | 1:21.049 | 12 | |
12. | Nakajima | Williams | 1:21.690 | 1:21.117 | 15 | |
13. | Button | Honda | 1:21.757 | 1:21.211 | 12 | |
14. | Glock | Toyota | 1:21.427 | 1:21.230 | 16 | |
15. | Rosberg | Williams | 1:21.472 | 1:21.349 | 15 | |
16. | Bourdais | Toro Rosso | 1:21.540 | 1:21.724 | 15 | |
17. | Coulthard | Red Bull | 1:21.810 | 6 | ||
18. | Vettel | Toro Rosso | 1:22.108 | 10 | ||
19. | Fisichella | Force India | 1:22.516 | 11 | ||
20. | Sutil | Force India | 1:23.224 | 8 | ||
21. | Davidson | Super Aguri | 1:23.318 | 9 | ||
22. | Sato | Super Aguri | 1:23.496 | 9 |