Heikki Kovalainen hjá McLaren fékk ekki að fara í dag af spítalanum í Barcelona þar sem hann hefur verið til rannsókna og eftirlits í framhaldinu af óhappinu í Spánarkappakstrinum í gær.
Kovalainen flaug út úr brautinni og skall á 229 km hraða á öryggisvegg eftir að vinstri framfelga gaf sig með þeim afleiðingum að dekkið sprakk og bíllinn varð stjórnlaus.
Talsmaður sjúkrahússins segir að Kovalainen verði í sjúkrahúsinu a.m.k. til morgundags. Hann undirgangist hefðbundnar rannsóknir sem gerðar eru í framhaldi af slysi eins og því sem hann varð fyrir.
Læknir McLaren,Aki Hintsa, segir að Kovalainen sé á góðum batavegi.
Martin Whitmarsh, framkvæmdastjóri McLaren, segir að ökuþórinn hafi m.a. undirgengist fulla sneiðmyndatöku á heila og enginn skaði eða mar komið í ljós.
Kovalainen missti meðvitund við höggið er bíll hans grófst inn í öryggisvegginn.