Kovalainen man ekki neitt

Björgunarmenn hífa Kovalainen upp úr bílnum.
Björgunarmenn hífa Kovalainen upp úr bílnum. ap

Heikki Kovalainen hjá McLaren segist ekki muna neitt af því er bíll hans flaug út úr brautinni í kappakstrinum í Barcelona á 240 km/klst hraða og grófst í öryggisvegg. Gagnrýnt er hversu stutt er í vegginn frá brautinni í viðkomandi beygju.

Kovalainen er laus af sjúkrahúsi í Barcelona en mun dveljast í borginni í nokkra daga áður en hann snýr heim og tekur til við léttar æfingar í framhaldi af slysinu.

Hann segir einu eftirköstin af skellinum harða á öryggisveggnum vera höfuðverk og hálsríg. Hlaut hann smávægilegan heilahristing við höggið auk þess sem hann missti meðvitund í nokkurn tíma.

„Að þessu frátöldu hef ég það fínt og andinn er góður. Nú einbeiti ég mér að því að fá mig fullsterkan sem fyrst svo ég komist í gegnum læknisskoðun Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) sem er forsenda þess að ég fái að keppa í Tyrklandi,“ sagði Kovalainen.

Mark Webber hjá Red Bull, sem er í fyrirsvari fyrir ökuþórum formúlunnar, segir tíma til kominn að endurskoða afrennslissvæðið við beygjuna sem Kovalainen flaug út úr, svonefnda Campsa-beygju sem ekin er á miklum hraða.

„Öryggissvæðið er alltof naumt og það verður að skoða,“ segir Webber í dálki sínum fyrir breska útvarpið, BBC. „Þetta er sennilega versti staðurinn í allri brautinni til að verða fyrir slysi,“ skrifar hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert