Super Aguri liðið hefur verið dregið út úr keppni í formúlu-1. Tilboð þýska bílafyrirtækisins Weigl Group um fjárfestingu í liðinu og björgun þess þótti ófullnægjandi og ólíklegt til að duga til að halda því gangandi.
Líf Super Aguri hefur hangið á bláþræði allt frá í fyrrasumar og yfirtökutilboð Weigl og þar áður Magma Group reyndust ónóg til að halda því lengur gangandi.
Var það niðurstaða af fundi liðsstjórans og eigandans Aguri Suzuki með stjórn Honda-fyrirtækisins í Japan í gær, að óráðlegt væri að troða elginn lengur.
Honda hefur verið helsti bakhjarl Super Aguri frá því það hóf keppni í formúlu-1 í ársbyrjun 2006. Það sem kippti hins vegar fótunum undan liðinu var að bandaríska fyrirtækið SS United Oil & Gas Company stóð ekki við samninga sem aðalstyrktarfyrirtæki liðsins 2007.
Innti það aldrei af hendi milljóna tuga dollara greiðslur til Super Aguri og hratt þar með liðinu út í kviksyndi sem því varð ekki bjargað upp úr. Þrátt fyrir miklar tilraunir tókst Suzuki Aguri aldrei að vinda ofan vandanum sem þá hlóðst upp. Sagðist hann í dag vera það þreyttur af öllu stritinu undanfarna mánuði að löngunin til að snúa aftur til keppni í formúlu-1 væri hverfandi.
Keppnisliðin 10 í stað 12
Með brotthvarfi Super Aguri verða eftir í formúlu-1 aðeins 10 keppnislið í stað 12 sem áformað var að þau yrðu í byrjun vertíðar 2008. Prodrive-liðið mætti ekki til leiks eins og til stóð. Réð þar einkum ágreiningur um keppnisbílana sem liðið hugðist kaupa frá McLaren. Williamsliðið sætti sig ekki við að slíkt yrði leift en formlega hefur sá ágreiningur ekki verið til lykta leiddur.
Super Aguri geldur þess ágreinings að hluta þar sem liðið hefur notast við ársgamla Hondabíla. Því blasti við að það yrði að smíða eigin bíla og tilboð bæði Magma og Weigl um aðkomu að liðinu þóttu ekki nógu burðug til að slíkt gæti orðið að veruleika.