Athygli vekur í Þýskalandi að þar hefur af opinberri hálfu verið stofnað til svonefndrar „frægðarhallar“ í virðingarskyni við íþróttamenn. Nöfn þriggja af frægustu íþróttamanna landsins vantar þó - þar á meðal Michael Schumacher.
Schumacher er sigursælasti ökumaður sögunnar í formúlu-1. Á heiðurslistann vantar einnig tennisleikarana Boris Becker og Steffi Graf.
Í frægðarhöllinni er að finna nöfn 40 þýskra íþróttamanna. Flestir þeirra eru komnir yfir móðuna miklu.
Það er íþróttastofnun að nafni Deutsche Sporthilfe sem fyrir frægðarhöllinni stendur. Vígði forseti Þýskalands, Horst Kohler, hana í byrjun vikunnar í Berlín.
Tilgangurinn með stofnun hallarinnar og kynningarstarfs sem henni fylgir er að hvetja ungt fólk til íþróttaiðkunar. Aðstandendur hennar segja að árlega verði allt að þrír íþróttamenn teknir inn í höllina og nöfn þeirra þar með sett á heiðurslistann til frambúðar.
Íþróttamennirnir sem komast í frægðarhöllina við stofnun hennar voru valdir af 25 manna valnefnd. Við valið var lagt til grundvallar íþróttalegur árangur, arfleifð íþróttamannanna, persónuleiki þeirra og hvort þeir hafi reynst góðar fyrirmyndir.
Það sætir gagnrýni, að fimm íþróttamenn á listanum komu við sögu á valdatíma nasista. Af því tilefni hafa sumir þýskir fjölmiðlar afskrifað frægðarhöllina með því að kalla hana „skammarhöllina“.