Því er hvíslað að tjaldabaki í Istanbúl, að Ferrariliðinu hafi e.t.v. tekist að taka aukið afl út úr keppnismótorum sínum í ár þrátt fyrir að mótorþróun hafi verið „fryst“ frá og með í fyrra.
Það er ekki aðeins að Ferraribílarnir taki betur af stað en allir aðrir því nú er Ferrarimótorinn jafnframt talinn kraftmestur allra keppnismótora. Annað var uppi á teningnum í fyrra er minni munur þótti vera og beinir það því sjónum manna að því hvort Ferrari hafi tekist að auka mótoraflið agnarögn.
Þýska akstursíþróttaritið Auto Motor und Sport telur að hestaflaaukning Ferrarimótorsins frá í fyrra nemi „tveggja tafa tölu“. Takmarkaðar breytingar voru leyfðar á mótorunum í vetur út frá þeim hönnunarforsendum sem bundnar voru í reglur í fyrra.
Flest liðanna munu hafa notfært sér það en sagan segir að nokkur liðanna séu óánægð með endurbætur Ferrari - sem FIA mun hafa gefið grænt ljós á - því þær hafi leitt til umtalsverðar afkastaaukningar.
Auto Motor und Sport segir ugg liðanna stafa af því að breytingar Ferrari hafi verið gerðar undir því yfirskyni að vinna bug „á endingarvanda“.
„Reglurnar [um frystingu mótora] leyfa engin stórstökk. Hvort endurbætur til að auka aflið hafi átt sér stað get ég ekki dæmt um. Ég geng út frá því að farið hafi verið eftir reglum og hef engar grunsemdir,“ sagði Mario Theissen BMW-stjóri í Istanbúl.