Sé rýnt í veðurkort frönsku veðurstofunnar fyrir komandi helgi kemur í ljós, að hún gerir á þessu stigi ráð fyrir rigningu á sunnudag, þegar formúlu-1 kappaksturinn fer þar fram.
Hálfskýjað og þurrt verður þegar tímatökurnar fara fram á laugardag, samkvæmt kortum Meteo-France. Um kvöldmatarleytið verður hins vegar farið að rigna í Mónakó. Og á sunnudeginum verður viðvarandi rigning allan daginn, samkvæmt spánni.
Rigning getur því sett stórt strik í reikninginn og jafnaði getumun liðanna, eins og oft hefur átt sér stað í formúlu-1. Ökuþórarnir vona að ekki skúri því Mónakó sé ekki besti staðurinn til að keppa í rigningu.
Ótti þeirra við rigningu er aukinn í ár þar sem þeir njóta ekki lengur allskyns hjálparbúnaðar á borð við spyrnustýringu og mótorbremsur til að komast hjá spóli.
„Í fyrra fór æfing fram í rigningu og það var næstum útilokað að keyra brautina og það þrátt fyrir allan hjálparbúnaðinn. Það yrði martröð að fá rigningu í ár þótt það gæti leitt til góðra úrslita vegna þess að svo margir myndu keyra á og falla úr leik,“ sagði Alonso er spænskir fjölmiðlar spurðu hvort hann sæi í slæmum veðurspám möguleika til að vinna ökumenn toppliðanna.
„Ég vona að hann haldist þurr í Mónakó því væta þar leggst illa í mig,“ sagði Alonso einnig.
Williamsþórinn Nico Rosberg var sammála og sagði að regndekkin hefðu einfaldlega ekki virkað í Mónakó í fyrra. Gerist það aftur og við með enga spyrnustýringu lengur, þá verður kappaksturinn . . . áhugaverður,“ sagði Rosberg.