Ferrari á fremstu rásröð

Massa í tímatökunum í Mónakó.
Massa í tímatökunum í Mónakó. ap

Ferraribílarnir verða á fremstu rásröð kappakstursins í Mónakó og McLarenbílarnir þar fyrir aftan eftir rimmu um ráspólinn sem var að ljúka rétt í þessu. Felipe Massa varð hlutskarpastur og Kimi Räikkönen varð annar.

Með þessu einokar Ferrari fremstu rásröð eins og liðið hefur þegar gert í mörgum mótum ársins. Sem er athyglisvert þar sem McLarenbílarnir  virtust hraðskreiðari á öllum þremur æfingunum í Mónakó, fram að tímatökunum.

 Röð fremstu manna breyttist ört á lokamínútum tímatökunnar en á endanum varð Lewis Hamilton hjá McLaren þriðji og liðsfélagi hans Heikki Kovalainen fjórði.

Räikkönen virtist kominn með pólinn á lokasekúndum þar sem hvorum McLarenþórnum tókst að svara góðum lokahring hans. Massa, sigurvegari síðasta kappaksturs, var þó enn í brautinni og sló félaga sínum við.

Massa setti besta tímann í öllum tímatökulotunum þremur. McLarenbílarnir voru hraðskreiðari Ferrarifákunum á fyrsta tímakafla brautarinnar en Ferrari var fljótari á öðru tímasvæðinu sem er lang lengst.

Robert Kubica á BMW varð fimmti og Nico Rosberg sýndi að hraði hans alla helgina var engin tilviljun því hann krækti í sjötta sætið.

Fernando Alonso á Renault virtist í erfiðleikum í fyrstu og annarri lotu. Kvartaði þá undan slöku veggripi en tryggði sig á endanum inn í lokalotuna og varð þar sjöundi. Hann var  eini ökumaðurinn sem notaði harðari dekkin í lokalotunni, aðrir settu traust sitt á þau mýkri.

Þvert á spár varð aðeins eitt óhapp í tímatökunum er David Coulthard ók út fyrir bestu aksturslínu á útleið úr veggöngunum með þeim afleiðingum að bíllinn lyftist og missti rásfestu. Skall hann utan í vegg og slitnuðu dekkin frá en bíllinn nam svo staðar í hjágötu.

Niðrustaða tímatökunnar varð annars sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Lota 1 Lota 2 Lota 3.
1. Massa Ferrari 1:15.190 1:15.110 1:15.787
2. Räikkönen Ferrari 1:15.717 1:15.404 1:15.815
3. Hamilton McLaren 1:15.582 1:15.322 1:15.839
4. Kovalainen McLaren 1:15.295 1:15.389 1:16.165
5. Kubica BMW 1:15.977 1:15.483 1:16.171
6. Rosberg Williams 1:15.935 1:15.287 1:16.548
7. Alonso Renault 1:16.646 1:15.827 1:16.852
8. Trulli Toyota 1:16.306 1:15.598 1:17.203
9. Webber Red Bull 1:16.074 1:15.745 1:17.343
10. Coulthard Red Bull 1:16.086 1:15.839 Engin tími
11. Glock Toyota 1:16.285 1:15.907
12. Button Honda 1:16.259 1:16.101
13. Heidfeld BMW 1:16.650 1:16.455
14. Nakajima Williams 1:16.756 1:16.479
15. Barrichello Honda 1:16.208 1:16.537
16. Bourdais Toro Rosso 1:16.806
17. Piquet Renault 1:16.933
18. Vettel Toro Rosso 1:16.955
19. Sutil Force India 1:17.225
20. Fisichella Force India 1:17.823
Rosberg hefur verið öflugur alla helgina á Williamsbílnum.
Rosberg hefur verið öflugur alla helgina á Williamsbílnum. ap
Räikkönen var á ráspólnum í nokkrar sekúndur.
Räikkönen var á ráspólnum í nokkrar sekúndur. ap
Alonso átti í basli á mýkri dekkjunum, sem hann er …
Alonso átti í basli á mýkri dekkjunum, sem hann er hér með undir bílnum. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert