Aðhafast ekki gegn Räikkönen

Räikkönen þræðir framhjá braki úr Williamsbíl Nico Rosberg.
Räikkönen þræðir framhjá braki úr Williamsbíl Nico Rosberg. ap

Dómarar kappakstursins í Mónakó hafa ákveðið að hafast ekkert að vegna aftanákeyrslu Kimi Räikkönen hjá Ferrari á Adrian Sutil hjá Force India-liðinu.

Aðeins voru nokkrar mínútur eftir af kappakstrinum er Räikkönen ók aftan á Sutil en við það skemmdist fjöðrunarbúnaður bílsins það mikið að hann gat ekki haldið áfram.

Räikkönen skemmdi trjónu sína og gat haldið áfram keppni eftir að hafa fengið nýja og varð níundi í mark.

Á þessu stigi var Sutil í fjórða sæti og á leið til síns langbesta árangurs í formúlu-1. Lið hans lagði fram formlega kvörtun til dómnefndar keppninnar.

Þó svo slysið hafi skrifast alveg á Räikkönen sögðu dómararnir enga þörf fyrir að gera nokkuð í málinu.

Sutil var miður sín yfir að verða af góðum úrslitum en hann sagðist hins vegar sannfærður um að Räikkönen hafi ekki ekið aftan á sig af ásettu ráði.

„Þetta var frábær kappakstur sem fékk þó ótrúlega leiðan endi. Við hefðum getað náð fjórða sæti. Það var árans ólán að Kimi skyldi keyra á mig. Það gerði hann augljóslega ekki af ásetningi,“ sagði Sutil.

Sjálfur sagðist Räikkönen hafa misst stjórn á bílnum og hafi ekkert  getað gert til að komast hjá því að skella á bíl Sutil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert