Adrian Sutil og Mike Gascoyne, tæknistjóri Force India, Máttar Indlands, hafa lagt fram formlegt kvörtunarbréf við dómara Mónakókappakstursins vegna ákeyrslu Kimi Räikkönen á Sutil undir lokin en þar með varð hann af fjórða sæti og sínum og liðsins fyrstu stigum.
Räikkönen virtist missa stjórn á bíl sínum á útleið úr undirgöngunum að beygjunni niður að hafnarsvæðinu, rétt eftir að kappaksturinn var endurræstur í kjölfar seinni ferðar öryggisbílsins í brautinni.
Skall hann aftan á bíl Sutil sem skemmdist of mikið til að hann gæti haldið áfram keppni. Máttarþórinn hafði staðið sig betur en nokkru sinni á ferlinum og í fjórða sæti er óhappið átti sér stað.
Gascoyne var ómyrkur í máli og sagði að niðurstaðan hefði orðið önnur ef Ferrari hefði orðið fórnarlamb atviksins. Hann sagði við bresku sjónvarpsstöðina ITV að hefðu hlutverkin verið á hinn veginn hefði ökumaður hans mátt búast við refsingu.
„Svekkelsið er fólgið í því, að hefði ökumaður Force India ekið aftan á heimsmeistara hefðum við getað átt von á eins eða tveggja móta banni. En þegar hlutverkin snúast við er það svekkjandi að dómararnir . . . ja ég vona að þeir skoði atvikið og grípi til viðeigandi rástafana,“ sagði Gascoyne.
„Við höfum farið fram á það við dómarana að þeir skoði málið strax, því það er þeirra hlutverk. Svona akstursframferði, að klessa einhvern út að óþörfu, hefði það verið einhver ungu strákanna á öftustu bílunum hefði þeim verið refsað. En það er eins og það gerist ekki þegar aðrir eiga í hlut,“ sagði Gascoyne ennfremur.
Hann sagði atvikið einkar svekkjandi þar sem það hefði átt sér stað í langbesta kappakstri Máttarins í formúlu-1.
Sutil hafði notfært sér rigningaraðstæður út í æsar og tekist að vinna sig upp í sjöunda sæti á 15. hring en hann hóf keppni í 19. sæti. Það gerði hann með góðum akstri, vel útfærðri herfræði og heppni en er hann féll úr leik hafði hann unnið sig upp í fjórða sæti og var þá á milli Ferraribílanna tveggja.
„Við áttum ekki í vandamálum eftir endurræsinguna en það leit alltaf út eins og Räikkönen ætlaði að fremja einhver heimskupör. Og hann gerði það svo á endanum,“ sagði Gascoyne.