Räikkönen leiður

Räikkönen þykir miður að hafa skemmt fyrir Sutil.
Räikkönen þykir miður að hafa skemmt fyrir Sutil. mbl.is/forceindiaf1

Kimi Räikkönen segist leiður yfir því að hafa skemmt fyrir Adrian Sutil hjá Force India með því að keyra aftan á hann undir lok kappakstursins í Mónakó. Sutil var á leið til síns besta árangurs í formúlu-1.

Sutil var í fjórða sæti undir lokin, milli Ferraribílanna, er Räikkönen missti stjórn á bíl sínum og hafnaði aftan á bíl Máttar Indlands er nokkrir hringir voru eftir af kappakstrinum.

Tjón af völdum ákeyrslunnar var það mikið að eigi varð áfram haldið og Sutil brast í tár yfir möguleikanum sem fór forgörðum með þessum hætti. Räikkönen þurfti að fá nýja trjónu og gat haldið áfram en lauk keppni í níunda sæti og þar með án stiga.

„Í aðalatriðum held ég að bremsurnar hafi verið of kaldar og ég læsti afturhjólunum. Ég missti bílinn næstum því frá mér en því miður skall ég aftan á honum. Og það er leitt þeirra vegna því þeir eru ekki oft í aðstöðu til að klára keppni í stigasæti,“ sagði Räikkönen eftir kappaksturinn.

„Ég fann því svolítið til með honum - en ég gat ekkert við þessu gert. Ég reyndi að hægja ferðina en komst hvergi og engin leið að hægja á - og ég missti fimmta sætið.

Ég er leiður hans vegna og liðsins því þeir komast varla oft í þá aðstæður að vinna fjórða sæti. Og þar fyrir utan í Mónakó. Því var þetta  honum þungbærara en mér. En þetta var akstursóhapp og ég gat ekkert gert við þessu.

Ég læsti bremsunum á ójöfnu og eftir það getur maður eiginlega ekki hægt á bílnum. Og ekkert rými til að reyna komast hjá því að rekast á hann,“ sagði Räikkönen.

Hann sagði að helgin væri til að gleyma henni, en hann hafði engan veginn við liðsfélaga sínum Felipe Massa og missti forystuna í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra til Lewis Hamilton.

„Þetta var ekki með okkar bestu mótum, en svona er kappaksturinn. Stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki. Ég gerði nokkur mistök og liðinu varð líka á í messunni og við guldum fyrir það. Förum bara til næsta kappaksturs í þeirri von að gera betur þar,“ sagði heimsmeistarinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert