Lewis Hamilton hjá McLaren var í þessu að vinna ráspól kanadíska kappakstursins í Montreal eftir spennandi keppni við fjölda ökuþóra. Annar varð Robert Kubica á BMW, þriðji Kimi Räikkönen á Ferrari og fjórði Fernando Alonso á Renault.
Hamilton náði ótrúlegum lokahring og var þá sex tíundu úr sekúndu fljótari í förum en næstu menn. Rétt áður hafði Kubica skotist úr fimmta sæti í það fyrsta.
Með árangrinum bindur Hamilton enda á sigurgöngu Ferrari í tímatökunum en ökumenn þess hafa unnið hvern ráspólinn af öðrum undanfarið.
Nico Rosberg á Williams var lengi með í keppninni og gerði sér lítið fyrir á lokahringnum að vinna sig upp í fimmta sætið og fram úr Felipe Massa hjá Ferrari, sem ræsir af sjötta rásstað á morgun.
Lewis Hamilton vann sinn fyrsta ráspól í formúlu-1 í Montreal í fyrra og jafnframt sinn fyrsta mótssigur. Virðist hann líklegur til að halda upp á þau tímamót með því að vinna sömu afrek í ár og í fyrra, þ.e. ráspól og sigur.
Alonso hefur tekist að bæta Renaultinn mjög og var aðeins 11 þúsundustu úr sekúndu á eftir Räikkönen. Munar þar mestu um annað tímatökusvæðið af þremur en þar var Alonso með fjórum tíundu úr sekúndu lengur í förum.
Athygli vekur að Heikki Kovalainen og Nick Heidfeld voru fjarri hinum hraðskreiðu félögum sínum, Hamilton og Kubica. Varð Kovlainen sjöundi og Heidfeld áttundi.
Rubens Barrichello hjá Honda komst í fyrsta sinn á árinu í þriðju lotu tímatöku. Hefur hann keppni í níunda sæti, en Mark Webber á Red Bull ók ekki í lokalotunni vegna skemmda sem urðu á bíl hans í lok annarrar lotu.
Í fyrsta sinn á árinu komst Jarno Trulli hjá Toyota ekki í þriðju lotu tímatökunnar. Hann snarsneri bílnum einu sinni í fyrstu lotu og tvisvar í þeirri næstu og varð fjórtándi. Vegna þessara vandræða Trulli varð liðsfélagi hans Timo Glock í fyrsta sinn framar, en hann varð ellefti.
Gírkassi bilaði hjá Jenson Button á Honda í byrjun fyrstu umferðar svo hann gat ekki ekið nema einn tímahring og varð nítjándi, einu sæti á undan Sebastian Vettel á Toro Rosso sem tók ekki þátt vegna tjóns á bíl hans á æfingu fyrr í dag.
Niðurstaða tímatökunnar varð sem hér segir, og þar með rásröð morgundagsins:
Röð | Ökuþór | Bíll | Lota 1 | Lota 2 | Lota 3 | Hri. |
---|---|---|---|---|---|---|
1. | Hamilton | McLaren | 1:16.909 | 1:17.034 | 1:17.886 | 19 |
2. | Kubica | BMW | 1:17.471 | 1:17.679 | 1:18.498 | 14 |
3. | Räikkönen | Ferrari | 1:17.301 | 1:17.364 | 1:18.735 | 23 |
4. | Alonso | Renault | 1:17.415 | 1:17.488 | 1:18.746 | 22 |
5. | Rosberg | Williams | 1:17.991 | 1:17.891 | 1:18.844 | 26 |
6. | Massa | Ferrari | 1:17.231 | 1:17.353 | 1:19.048 | 23 |
7. | Kovalainen | McLaren | 1:17.287 | 1:17.684 | 1:19.089 | 25 |
8. | Heidfeld | BMW | 1:18.082 | 1:17.781 | 1:19.633 | 21 |
9. | Barrichello | Honda | 1:18.256 | 1:18.020 | 1:20.848 | 25 |
10. | Webber | Red Bull | 1:17.582 | 1:17.523 | 15 | |
11. | Glock | Toyota | 1:18.321 | 1:18.031 | 19 | |
12. | Nakajima | Williams | 1:17.638 | 1:18.062 | 19 | |
13. | Coulthard | Red Bull | 1:18.168 | 1:18.238 | 19 | |
14. | Trulli | Toyota | 1:18.039 | 1:18.327 | 16 | |
15. | Piquet | Renault | 1:18.505 | 1:18.393 | 18 | |
16. | Bourdais | Toro Rosso | 1:18.916 | 10 | ||
17. | Sutil | Force India | 1:19.108 | 12 | ||
18. | Fisichella | Force India | 1:19.165 | 12 | ||
19. | Button | Honda | 1:23.565 | 3 | ||
20. | Vettel | Toro Rosso |