Kubica efstur í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra

Kubica ekur yfir marklínuna í Montreal.
Kubica ekur yfir marklínuna í Montreal. reuters

Með jómfrúarsigri sínum í formúlu-1 í Montreal tók Robert Kubica hjá BMW forystu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Hefur hann 42 stig og fjögurra stiga forskot á Lewis Hamilton hjá McLaren og Felipe Massa hjá Ferrari sem hvor um sig hefur unnið 38 stig.

Kimi Räikkönen heimsmeistari var fyrir tveimur mótum með forystu í titilslagnum en fékk hvorki stig í dag í Montreal né í Mónakó fyrir hálfum mánuði. Er hann því fallinn niður í fjórða sæti með 35 og er því sjö stigum á eftir Kubica. Heidfeld er síðan í fimmta sæti með 28 stig.

BMW átti fullkominn dag með því að Nick Heidfeld varð annar í mark. Við það komst það vel upp fyrir McLaren í keppni bílsmiða og dró næstum Ferrari uppi. Vegna brottfalls Räikkönen bjargaði Felipe Massa heiðri Ferrari með fimmta sætinu, sem gaf honum fjögur stig, eða nóg til að liðið héldi efsta sæti.

Er Ferrari með 73 stig, BMW 70 og McLaren 53. Í fjórða sæti er Red Bull með 21 stig og munar þar mikið um góðan árangur Davids Coulthard sem varð þriðji á mark í dag. Vann hann sín fyrstu mótsstig á vertíðinni í dag.

Með fjórða sæti Timo Glock og sjötta sæti Jarno Trulli komst Toyota upp fyrir Williamsliðið í fimmta sæti, stigin 17:15 milli þessara samstarfsliða.

Kubica í fyrsta sinn á efsta þrepi verðlaunapalls í formúlu-1.
Kubica í fyrsta sinn á efsta þrepi verðlaunapalls í formúlu-1. reuters
Liðsmenn BMW fagna Kubica er hann nemur staðar eftir kappaksturinn …
Liðsmenn BMW fagna Kubica er hann nemur staðar eftir kappaksturinn í Montreal. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert