Kubica vinnur jómfrúarsigur og fyrsta sigur BMW

Kubica í fyrsta sinn á efsta þrepi verðlaunapalls í formúlu-1. …
Kubica í fyrsta sinn á efsta þrepi verðlaunapalls í formúlu-1. Annar varð Heidfeld (t.v.) og þriðji David Coulthard (t.h.). reuters

Pólski ökuþórinn Robert Kubica hjá BMW var í þessu að vinna jómrfúarsigur sinn og liðsins í formúlu-1 með því að aka fyrstur yfir marklínuna í Montreal. Tók hann í leiðinni forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.

Kubica er jafnframt fyrsti pólski ökuþórinn til að vinna sigur í formúlu-1. Það eykur á mikilfengleik sigurs Kubica í Montreal, að hann varð fyrir alvarlegu slysi í kappakstrinum í fyrra - bíll hans skall á einum öryggisveggnum af öðrum af gífurlegu afli. Kraftaverk þótti að hann slapp tiltölulega lítt meiddur.

Liðsfélagi Kubica, Nick Heidfeld, varð annar og hlaut BMW því fullt hús stiga. Fullkomnara getur það ekki verið og hefur liðið nær dregið Ferrari uppi í keppni bílsmiða.

Er þetta langbesti árangur BMW frá því liðið hóf keppni í formúlu-1. Ótrúlegt afrek á aðeins þriðja ári í keppni sem mun eflaust blása eldmóði í liðsmenn og efla sjálfstraust þeirra fyrir seinni hluta keppnistímabilsins.

Fyrr á vertíðinni braut Kubica einnig blað í sögu þátttöku BMW í formúlu-1 er hann vann sinn fyrsta ráspól og liðsins í kappakstrinum í Barein í byrjun apríl.  

David Coulthard hjá Red Bull, aldursforseti ökuþóra, stóð sig vel og ók úr þrettánda sæti í það þriðja. Er það langbesti árangur hans lengi og raunar í fyrsta sinn á árinu sem hann lýkur kappakstri í stigasæti.

Timo Glock hjá Toyota náði sínum langbesta árangri í formúlu-1 með fjórða sætinu. Er það í fyrsta sinn sem hann lýkur keppni í stigasæti. Félagi hans Jarno Trulli missti í lokin Felipe Massa á Ferrari fram úr sér og varð sjötti en engu að síður er þetta einhver besti árangur Toyota frá því liðið hóf keppni 2002.

Í sjöunda og áttunda sæti urðu Rubens Barrichello á Honda og Sebastian Vettel á Toro Rosso en hann hóf keppni úr bílskúrareininni.

Hamilton ók á Räikkönen og felldi báða úr leik

Lewis Hamilton á McLaren hóf keppni af ráspól og tók strax forystu sem hann jók jafnt og þétt. Er öryggisbíllinn var í brautinni vegna óhapps gerði hann þau ótrúlegu mistök í bílskúrareininni að aka aftan á kyrrstæðan Ferraribíl Kimi Räikkönen.

Báðir bílarnir skemmdust talsvert og var útilokað að þeir gætu haldið áfram keppni.

Fernando Alonso sýndi styrkleika á Renaultbílnum og var lengstum í toppslagnum. Varð það honum til óláns að Heidfeld kom rétt fyrir framan hann út úr sínu eina bensínstoppi. Alonso var hraðskreiðari og gerði fjölda tilrauna til að komast fram úr en Heidfeld varðist vel.

Virtist Alonso teygja sig full langt í sókn sinni með þeim afleiðingum að bíll hans snarsnerist með þeim afleiðingum að hann féll úr leik. Reyndar sagði hann að gírkassinn hefði snuðað hann og valdið snúningnum.

Kubica á ferð í Montreal.
Kubica á ferð í Montreal. ap
Kubica fagnar sigri í Montreal og fyrir aftan faðmast Heidfled …
Kubica fagnar sigri í Montreal og fyrir aftan faðmast Heidfled og liðsstjóri BMW, Mario Theissen. reuters
Kubica fagnar sigri á innhring í Montreal.
Kubica fagnar sigri á innhring í Montreal. reuters
Kubica fagnar sigrinum með Mario Theissen liðsstjóra BMW.
Kubica fagnar sigrinum með Mario Theissen liðsstjóra BMW. reuters
Heidfeld (t.v.) og Kubica fagna tvöföldum sigri BMW í Montreal.
Heidfeld (t.v.) og Kubica fagna tvöföldum sigri BMW í Montreal. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert