Kimi Räikkönen á Ferrari er í óskastöðu til að endurtaka afrek sitt frá í fyrra og sigra í franska kappakstrinum þar sem hann vann ráspólinn rétt í þessu eftir jafna og spennandi keppni. Annar varð liðsfélagi hans Felipe Massa, þriðji Lewis Hamilton á McLaren og fjórði Fernando Alonso á Renault.
Þar sem Hamilton færist aftur á 13. rásstað vegna refsingar frá í síðasta móti fær Alonso þriðja rásstaðinn. Við hlið hans verður Jarno Trulli á Toyota sem náði fimmta sætinu þrátt fyrir að fyrri tímatilraunin í lokalotunni færi forgörðum er hann snarsneri bílnum.
Á þriðju rásröð verða Heikki Kovalainen á McLaren og Robert Kubica á BMW og þeirri fjórðu Red Bull-félagarnir Mark Webber og David Coulthard.
Athygli vekur eftir sigurför BMW-liðsins til Montreal fyrir hálfum mánuði, að Nick Heidfeld komst ekki áfram í lokalotuna í tímatökunum nú. Minnstu munaði að hann sæti eftir í fyrstu umferð en hann varð á endanum tólfti.
Tímatökurnar í Magny-Cours voru jafnari en oft áður og baráttan um allt að þúsundustu brota úr sekúndu.
Árangur Räikkönen markar tímamót fyrir Ferrariliðið því þetta er 200. ráspóll liðsins frá upphafi vega í formúlu-1.
Niðurstöður tímatökunnar urðu annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Lota 1 | Lota 2 | Lota 3 | Hri. |
---|---|---|---|---|---|---|
1. | Räikkönen | Ferrari | 1:15.133 | 1:15.161 | 1:16.449 | 16 |
2. | Massa | Ferrari | 1:15.024 | 1:15.041 | 1:16.490 | 17 |
3. | Hamilton | McLaren | 1:15.634 | 1:15.293 | 1:16.693 | 15 |
4. | Alonso | Renault | 1:15.754 | 1:15.483 | 1:16.840 | 18 |
5. | Trulli | Toyota | 1:15.521 | 1:15.362 | 1:16.920 | 19 |
6. | Kovalainen | McLaren | 1:15.965 | 1:15.639 | 1:16.944 | 18 |
7. | Kubica | BMW | 1:15.687 | 1:15.723 | 1:17.037 | 19 |
8. | Webber | Red Bull | 1:16.020 | 1:15.488 | 1:17.233 | 18 |
9. | Coulthard | Red Bull | 1:15.802 | 1:15.654 | 1:17.426 | 19 |
10. | Glock | Toyota | 1:15.727 | 1:15.558 | 1:17.596 | 24 |
11. | Piquet | Renault | 1:15.848 | 1:15.770 | 12 | |
12. | Heidfeld | BMW | 1:16.006 | 1:15.786 | 14 | |
13. | Vettel | Toro Rosso | 1:15.918 | 1:15.816 | 17 | |
14. | Bourdais | Toro Rosso | 1:16.072 | 1:16.045 | 17 | |
15. | Rosberg | Williams | 1:16.085 | 1:16.235 | 12 | |
16. | Nakajima | Williams | 1:16.243 | 9 | ||
17. | Button | Honda | 1:16.306 | 9 | ||
18. | Barrichello | Honda | 1:16.330 | 6 | ||
19. | Fisichella | Force India | 1:16.971 | 10 | ||
20. | Sutil | Force India | 1:17.053 | 9 |