Felipe Massa hjá Ferrari var í þessu að vinna öruggan sigur í franska kappakstrinum og taka forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Annar varð félagi hans Kimi Räikkönen sem varð að gefa eftir um tíma vegna skemmda en komst aftur á ferðina og tryggði Ferrari tvöfaldan sigur.
Sigur Massa er sá þriðji á árinu og sá áttundi á ferlinum. Með honum tók hann forystu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra af Robert Kubica hjá BMW. Á þeim munar þó aðeins tveimur stigum, 48:46. Og Räikkönen vann sig upp um sæti, komst upp fyrir Lewis Hamilton og er með 43 stig gegn 38 stigum Hamiltons.
Hamilton átti aldrei möguleika á stigasæti eftir að honum var gert að aka gegnum bílskúrareinina sem akstursvíti fyrir að undirskjóta beygju í framúrakstri snemma í kappakstrinum. Hóf hann keppni í 13. sæti vegna vítis sem honum var gert eftir síðasta mót.
Bilun í pústgrein olli því að Räikkönen varð að hægja ferðina um miðbik kappakstursins. Við það gufaði upp gott forskot hans, Massa dró hann uppi og komst fram úr á 38. hring af 70. Og þótt hann sparaði bíl sinn það sem eftir var reyndist Räikkönen unnt að klára keppnina í öðru sæti.
Fyrsta verðlaunasæti Toyota í 27 mánuði
Jarno Trulli hjá Toyota skaust upp í þriðja sæti í ræsingunni og stóðst síðan harðar atlögur á lokahringjunum frá Heikki Kovalainen á McLaren og hélt sætinu. Minnstu munaði að illa færi er Kovalainen reyndi framúrakstur á vonlausum stað, utanvert inn að hægri beygju. Bílarnir rákust saman en betur fór en á horfðist og báðir komust klakklaust frá atvikinu.
Er þetta í fyrsta sinn frá í Melbourne fyrir tveimur árum, 2006, sem ökumaður Toyota kemst á verðlaunapall í formúlu-1.
Árangurinn tileinkaði Trulli og Toyota fyrsta liðsstjóra sínum, Ove Andersson, sem beið bana í bílslysi fyrir rúmri viku.
Tilraunir Fernando Alonso til að koma Renault í fyrsta sinn á verðlaunapall í ár fjöruðu mikið til út í ræsingunni þar sem hann féll ú þriðja sæti í það fimmta á fyrstu metrunum. Hann vann sig aftur fram úr Kubica en dalaði á ný í fyrstu lotu þjónustustoppa þar sem hann stoppaði mun fyrr en helstu keppinautarnir.
Undir lokin dró Alonso Mark Webber á Red Bull uppi og freistaði að komast fram úr á næstsíðasta hring. Rann þá til í vætu í beygju með þeim afleiðingum að liðsfélagi hans Nelson Piquet komst fram úr.
Piquet ók vel og öflugt alla leið og varð sjöundi í mark og vann sín fyrstu stig á vertíðinni. Jafnframt hefur hann ekki áður orðið á undan Alonso, hvorki í tímatökum né keppni. Var tími til kominn að hann sýndi eitthvað því slakur árangur hans til þessa hafði aukið líkur á því við nær hvert mót að hann yrði settur af.
Aðeins einn ökumaður féll úr leik, Jenson Button á Honda, vegna skemmda sem urðu á Hondunni við samstuð við Sebastien Bourdais á Toro Rosso á fyrsta hring.