McLarenliðið er staðráðið í að binda endi á ófaraskeið undanfarinna vikna með því að vinna breska kappaksturinn í Silverstone eftir viku, segir framkvæmdastjóri liðsins, Martin Whitmarsh. Í því skyni hefur keppnisbíllinn verið endurbættur undanfarið.
McLaren hefur dregist aftur úr keppinautunum, bæði í keppni bílsmiða og ökuþóra. Breski kappaksturinn markar upphaf seinni helmings keppnistímabilsins og verður á brattann að sækja fyrir McLaren, ætli það að binda enda á níu ára titilþurrð í formúlu-1.
Í framhaldi af sigri Lewis Hamilton hlaut liðið engin stig í kanadíska kappakstrinum í Montreal. Í síðasta móti, franska kappakstrinum í Magny-Cours, varð Heikki Kovalainen í fjórða sæti en Hamilton því tíunda.
Í síðarnefnda mótinu voru báðir ökumennirnir færðir aftur á rásmarki vegna víta.
Whitmarsh játar að liðið hafi verið undir getu undanfarið en segist í engum vafa um að það muni slá frá sér á nýjan leik frá og með kappasktrinum í Silverstone.
„Það er óhjákvæmilegur þáttur í liðsstarfinu að takast á við lélegan og svekkjandi árangur,“ segir Whitmarsh. „Sem lið er tilgangur okkar að vinna sigur og þegar við erum ekki á því blússi tökum við hart á okkur sjálfum. Það gagnrýna okkur engir harðar en við sjálfir
Við erum sannfærðir um að í Lewis og Heikki séum við með góða blöndu af æsku og áhuga til að keppa til sigurs og blanda okkur í titilslaginn.“
McLaren prófaði í vikunni ýmsa nýja íhluti í keppnisbílinn og lýstu ökumennirnir sig ánægða með endurbæturnar. Ef marka má árangurinn virðist um framför í bílnum að ræða. Kovalainen setti besta tíma annars dags og Hamilton þess þriðja. McLaren er áfram um að stöðva sigurgöngu Ferrari sem unnið hefur nokkur mótanna í ár tvöfalt, þar á meðal franska kappaksturinn um síðustu helgi.