Sú lausafregn gengur nú manna á meðal á vettvangi formúlu-1 að Skotinn David Coulthard muni tilkynna á heimavelli sínum í Silverstone um helgina, að hann muni hætta keppni í ár.
Coulthard er á sinni fimmtándu keppnistíð í röð og nálgast senn 250. kappaksturinn í formúlu-1. Þrettán sinnum hefur hann staðið á efsta þrepi verðlaunapallsins. Hann er elsti ökumaður formúlunnar, 37 ára að aldri.
Samningur Coulthard við Red Bull rennur út í vertíðarlok og þykja sterkar líkur á að þýski ökuþórinn Sebastian Vettel taki við sæti hans en hann keppir fyrir systurliðið Toro Rosso.