Kimi Räikkönen hjá Ferrari telur sig hafa getað unnið breska kappaksturinn í dag hefði þjónustusveit hans sett ný dekk undir bílinn í fyrsta þjónustustoppinu.
Räikkönen varð á endanum í fjórða sæti en um tíma stefndi í mun lakari árangur hjá heimsmeistaranum vegna gatslitinna dekkja.
„Ég er svekktur en líka meðvitaður um að niðurstaðan hefði getað orðið mun verri. Við fengum tækifæri til að vinna kappaksturinn en gerðum þau mistök að skipta ekki um dekk í fyrsta stoppi. Bjuggumst við að aðstæður í brautinni myndu batna.
Þetta var sameiginleg ákvörðun, við erum lið og sigrum saman og töpum saman.
Mér gengur ekki alltof vel um þessar mundir, miðað við allt sem komið hefur uppá í nokkrum síðustu mótum. Ég er þó í forystu í titilkeppninni, jafn Felipe [Massa] og Lewis [Hamilton] að stigum. Við vitum að í okkur býr mikið, þurfum bara að láta allt smella saman til að ná sem mestu út úr okkur,“ sagði Räikkönen eftir kappaksturinn í dag.