Lewis Hamilton á McLaren setti besta hringinn annan daginn í röð við bílprófanir formúluliðanna í Hockenheim. Nýr kæliturn vélarhúss með ugga aftur úr var ekki notaður við reynsluaksturinn í dag. Setti hann rúmlega hálfrar sekúndu betri tíma í dag.
Nico Rosberg hjá Williams ók manna mest eða 117 hringi. Átti hann næstbesta hriginn. Kimi Räikkönen setti þriðja besta tímann og eftir æfingarnar sagðist hann mjög bjartsýnn fyrir kappaksturinn um aðra helgi.
„Ég er tiltölulega sáttur við afrakstur þessara tveggja daga. Við freistuðum fyrst og fremst að finna ákjósanlega uppsetningu í bílinn og komum stöndugir til þýska kappakstursins,“ sagði hann.
David Coulthard á Red Bull setti fjórða besta tímann. Hann ók aðeins fyrir hádegi en Mark Webber tók við bílnum eftir hádegi.
Niðurstaða æfingarinnar varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Hri. |
---|---|---|---|---|
1. | Hamilton | McLaren | 1:14.872 | 101 |
2. | Rosberg | Williams | 1:15.257 | 117 |
3. | Räikkönen | Ferrari | 1:15.296 | 90 |
4. | Coulthard | Red Bull | 1:15.767 | 42 |
5. | Sutil | Force India | 1:15.945 | 97 |
6. | Vettel | Toro Rosso | 1:15.955 | 62 |
7. | Glock | Toyota | 1:15.995 | 114 |
8. | Alonso | Renault | 1:16.141 | 106 |
9. | Barrichello | Honda | 1:16.144 | 90 |
10. | Webber | Red Bull | 1:16.217 | 70 |
11. | Heidfeld | BMW | 1:16.235 | 115 |
12. | Bourdais | Toro Rosso | 1:16.550 | 36 |