Timo Glock varð ekki meintara en svo af skellinum mikla í Hockenheim á sunnudag, að hann mun sinna reynsluakstri fyrir Toyota í Jerez á Spáni í dag.
Í miðjum kappakstrinum í Hockenheim brotnaði hægri afturfjöðrun í Toyotun Glock með þeim afleiðingum að bíllinn þveraði brautina og skall á miklum hraða á steyptum brautarvegg.
Ökuþórinn var fluttur á spítala og dvaldi þar í sólarhring til eftirlits og rannsókna. Vankaðist hann við höggið en hlaut að öðru leyti engin meiðsl.
Glock tekur í dag við akstri af Jarno Trulli sem sá um bílprófanir Toyota í gær og fyrradag í Jerez.