Kovalainen fagnar óvæntum jómfrúarsigri í Búdapest

Kovalainen fagnaði mjög á pallinum í Búdapest.
Kovalainen fagnaði mjög á pallinum í Búdapest. ap

Heikki Kovalainen hjá McLaren var í þessu að vinna ungverska kappaksturinn. Er það jómfrúarsigur hans í formúlu-1. Felipe Massa stefndi í öruggan sigur en mótor Ferrarifáksins gaf upp öndina þegar þrír hringir voru eftir af 70. Timo Glock hjá Toyota varð annar og er það í fyrsta sinn sem hann kemst á verðlaunapall.

Kovalainen, sem á 28 mót að baki, hefur aðeins tvisvar áður komist á verðlaunapall í formúlu-1; í Japan í fyrra, þar sem hann varð annar, og Malasíu í ár er hann varð þriðji. Hann hóf kappaksturinn í dag í öðru sæti en Massa komst fram úr bæði honum og ráspólshafanum Lewis Hamilton á fyrstu metrunum.

Hamilton var allan tímann í öðru sæti uns dekk sprakk á 37. hring. Komst þó inn að bílskúr og fékk ný dekk og bensín til enda. Kom út í tíunda sæti en vann sig upp á við er ökumenn á undan urðui að taka sitt seinna bensínstopp.

Sviptingar í stigakeppni ökuþóra og bílsmiða

Lengi leit út fyrir að Hamilton færi stigalaus af vettvangi og Massa næði af honum forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Og útlit var fyrir að Massa yki forskot sitt á liðsfélaga sinn Räikkönen. Ennfremur að Ferrari myndi sigla enn lengra fram úr McLaren og BMW í keppni bílsmiða.

Allt þetta gjörbreyttist við brottfall Massa - Hamilton heldur forystunni og það meiri en fyrir mót og Räikkönen komst upp fyrir Massa. Hefur Hamilton nú 62 stig, Räikkönen 57 og Massa 54. Fimmti er Robert Kubica hjá BMW með 49 stig, en hann bætti einu stigi í sitt safn með áttunda sæti í dag.

Þá laut McLaren 14 stig en Ferrari aðeins sex í keppni bílsmiða. Komst því enska liðið rækilega fram úr BMW, sem hlaut aðeins eitt stig í dag. Og munar nú aðeins 11 stigum á McLaren og Ferrari, 111:100, ítalska liðinu í hag.

Með sigrinum styrkti Kovalainen mjög stöðu sína í keppni ökuþóra, þótt langt á eftir þremur fyrstu sé. Er sjötti og aðeins þremur stigum á eftir Nick Heidfeld hjá BMW, sem varð aðeins tíundi í dag.

Glock maður mótsins

Þrátt fyrir hinn óvænta sigur Kovalainens verður Timo Glock hjá Toyota að teljast maður dagsins, en hann varð annar og komst í fyrsta sinn á verðlaunapall í formúlu-1.

Glock hélt í við Kovalainen að hraða langt rfam eftir kappakstrinum og varði síðan stöðu sína vel á síðustu 10-15 hringina er Räikkönen nálgaðist hann ógnarhratt.

Með öðru sæti Glock heldur Toyota sama forskoti og fyrr á Renault í keppni bílsmiða. Annað mótið í röð uppskar Renault átta stig og vann sig fram úr Red Bull og upp í fimmta sæti. Toyota heldur fjórða sæti með, með 35 stig en Renault 31.

Úrslit kappakstursins í Búdapest

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

Massa vinnur fyrsta sætið af Hamilton á leið inn í …
Massa vinnur fyrsta sætið af Hamilton á leið inn í fyrstu beygju. ap
Liðsmenn McLaren fagna Kovalainen við endamark.
Liðsmenn McLaren fagna Kovalainen við endamark. ap
Kovalainen á efsta þrepi í fyrsta sinn og Glock í …
Kovalainen á efsta þrepi í fyrsta sinn og Glock í fyrsta sinn á palli. ap
Massa grípur um höfuð er hann gengur frá dauðum Ferrarinum.
Massa grípur um höfuð er hann gengur frá dauðum Ferrarinum. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert