Fernando Alonso þarf að draga fram seðlaveskið og reiða fram 10.000 evrur, um 1,2 milljónir króna, vegna sektar sem hann fékk í Valencia í dag.
Dómarar kappakstursins skelltu þessari þungu sekt á heimsmeistarann fyrrverandi eftir að honum varð það á, að aka yfir óbrotna akreinarlínu á leið sinni inn á bílskúrasvæðið.
Línan afmarkaði aðreinina að bílskúrunum og bar Alonso að fara fyrr inn í reinina á leið sinni úr brautinni. Atvikið átti sér stað á seinni æfingu dagsins.
Alonso var ekki sá eini sem refsað var fyrir ólögmætt athæfi á bílskúrasvæðunum því David Coulthard hjá Red Bull var sektaður um 2.200 evrur, tæplega 250 þúsund krónur, fyrir að aka of hratt í bílskúrareininni.