Felipe Massa hjá Ferrari hreppti ráspól Evrópukappakstursins í Valencia á Spáni rétt í þessu. Fyrir lokalotuna leit út fyrir að rásröðin yrði afar óvenjuleg en í þriðju og síðustu lotu náðu toppmennirnir sér loks á strik.
Lewis Hamilton hjá McLaren varð annar, Robert Kubica hjá BMW þriðji og Kimi Räikkkönen hjá Ferrari fjórði. Heikki Kovalainen hjá McLaren varð svo fimmti.
Árangur ökuþóra Toro Rosso kemur á óvart. Báðir komust í lokalotuna og er það í fyrsta sinn á ferlinum sem Sebastien Bourdais nær þangað. Hann varð að lokum tíundi en Sebastian Vettel gerði betur og varð sjötti. Vettel var maður annarrar lotu því þá setti hann besta brautartímann.
Ökumenn móðurliðsins, Red Bull, sátu eftir. David Coulthard var sleginn út í fyrstu lotu og Mark Webber í annarri. Þar enduðu draumar Fernando Alonso hjá Renault einnig. Eftir góða fyrstu lotu þar sem hann setti fjórða besta tímann gerði hann mistök í tímatilraun sinni og varð aðeins 12. að lokinni annarri lotu og þar með úr leik.
Langt er síðan Renault hefur ekki átt einn mann eða tvo meðal tíu fremstu. Nelson Piquet stóð sig einnig illa og varð 15.
Hondaliðið gerði sér miklar vonir fyrir mótið en beið nokkuð skipbrot í tímatökunum þar sem Jenson Button og Rubens Barrichello féllu báðir út í fyrstu lotu.
Niðurstaðan - og þar með rásröðin á morgun - varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Lota 1 | Lota 2 | Lota 3 | Hri. |
---|---|---|---|---|---|---|
1. | Massa | Ferrari | 1:38.176 | 1:37.859 | 1:38.989 | 19 |
2. | Hamilton | McLaren | 1:38.464 | 1:37.954 | 1:39.199 | 15 |
3. | Kubica | BMW | 1:38.347 | 1:38.050 | 1:39.392 | 18 |
4. | Räikkönen | Ferrari | 1:38.703 | 1:38.229 | 1:39.488 | 21 |
5. | Kovalainen | McLaren | 1:38.656 | 1:38.120 | 1:39.937 | 18 |
6. | Vettel | Toro Rosso | 1:38.141 | 1:37.842 | 1:40.142 | 19 |
7. | Trulli | Toyota | 1:37.948 | 1:37.928 | 1:40.309 | 21 |
8. | Heidfeld | BMW | 1:38.738 | 1:37.859 | 1:40.631 | 19 |
9. | Rosberg | Williams | 1:38.595 | 1:38.336 | 1:40.721 | 18 |
10. | Bourdais | Toro Rosso | 1:38.622 | 1:38.417 | 1:40.750 | 18 |
11. | Nakajima | Williams | 1:38.667 | 1:38.428 | 15 | |
12. | Alonso | Renault | 1:38.268 | 1:38.435 | 12 | |
13. | Glock | Toyota | 1:38.532 | 1:38.499 | 14 | |
14. | Webber | Red Bull | 1:38.559 | 1:38.515 | 15 | |
15. | Piquet | Renault | 1:38.787 | 1:38.744 | 15 | |
16. | Button | Honda | 1:38.880 | 6 | ||
17. | Coulthard | Red Bull | 1:39.235 | 9 | ||
18. | Fisichella | Force India | 1:39.268 | 10 | ||
19. | Barrichello | Honda | 1:39.811 | 10 | ||
20. | Sutil | Force India | 1:39.943 | 9 |