Lewis Hamilton skýrði frá því eftir kappaksturinn í Valencia, að ekki vantaði mikið á að hann hætti við að keppa af heilsufarsástæðum. Var þriðji ökuþór McLaren, Pedro de la Rosa, klár til að hlaupa í skarðið fyrir hann.
Hamilton var með mikinn hita og verkjaði í hálsinn fyrir tímatökurnar í gær. „Þetta hefur verið hálf eymdarleg helgi í raun,“ sagði Hamilton eftir kappaksturinn í dag.
„Ég var með flensu þegar ég kom hingað og með mikinn hita og slappur flesta dagana. Þá gerði hálsrígur mér erfitt fyrir og munaði minnstu vegna þessa að ég keppti ekki,“ sagði hann.
Hann þakkaði það lækni McLarenliðsins sem vék vart frá honum og stuðlaði að því að hann hafði náð meiri heilsu í dag.
„Þetta var svo slæmt að það var erfiðisvinna að standa á fætur. Ég fékk sprautur við hálsrígnum og tók fullt af verkjalyfjum. Frábær þjálfari hjálpaði mér líka. Pedro hlakkaði til að keppa,“ bætti Hamilton við.