Massa ók eins og meistari

Massa á leið til sigurs í Valencia.
Massa á leið til sigurs í Valencia. ap

Felipe Massa hjá Ferrari var í þessu að vinna Evrópukappaksturinn í Valencia á Spáni, en óvíst er hvort hann haldi fyrsta sætinu þar sem dómarar kappakstursins eiga eftir að úrskurða hvort hann verði víttur fyrir hættuakstur á útleið úr seinna þjónustuhléi. Lewis Hamilton hjá McLaren varð annar og Robert Kubica hjá BMW þriðji.

Við lá að Massa skylli utan í bíl Adrians Sutil hjá Force India er hann tók af stað úr stoppinu. Gaf hann síðan eftir þar sem ekki komust báðir samsíða inn í útreinina af bílskúrasvæðinu. Sérstakur maður hjá hverju liði hefur það hlutverk að gefa ökumanni merki um að taka af stað og ber honum að bíða með það sé bíll á ferð í reininni kominn það nálægt að öryggi sé ógnað.

Dómarar ákváðu strax að taka atvikið í lok þjónustustoppsins til rannsóknar og hvort þar hafi verið stofnað til óþarfa hættu með ólögmætum hætti. Voru þá um 20 hringir eftir en síðar frestuðu þeir að ljúka málinu þar til eftir keppni.

Því hékk sá vafi yfir Massa er hann tók við verðlaunum sigurvegara. Ók hann annars sem heimsmeistari væri alveg frá ræsingu og var aldrei ógnað. Hið sama er að segja um Hamilton, annað sætið var hans frá upphafi.

Atvikið var annað tveggja við bílskúr Ferrari sem setti svip sinn á mótið. Í seinna skiptið tók Kimi Räikkönen of fljótt af stað með þeim afleiðingum að hann keyrði niður nokkra liðsmenn þjónustusveitarinnar. Var bensínslangan og enn tengd bílnum er hann tók af stað.

Räikkönen stöðvaði bílinn og beið uns slangan var aftengd og honum hleypt af stað. Féll hann við þetta niður um sæti í það sjötta. Ólánið elti hann frekar því rúmum hring seinna sprakk mótorinn í Ferrarifáknum svo  Räikkönen féll úr leik er 11 hringir voru eftir. Er það í annað sinn í tveimur mótum sem Ferrarimótor springur, slíkt kom fyrir Massa í síðasta móti er sigur blasti við honum í Búdapest.

Með sigrinum - hinum fjórða á árinu - komst Massa aftur upp í annað sæti í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra og minnkaði forskot Hamilton í sex stig, 70:64. Räikkönen féll niður í þriðja sæti, er 13 stigum á eftir Hamilton og aðeins tveimur stigum á undan Kubica sem náði sínum besta árangri frá í Monreal 8. júní er hann fór með sigur af hólmi.

Sömuleiðis minnkaði McLaren forystu Ferrari í keppni bílsmiða um þrjú  stig þar sem Hamilton og Heikki Kovalainen hlutu saman 13 stig gegn 10 stigum Massa. Hefur Ferrari átta stiga forskot, 121:113.  

Tvö lið áttu sérlega góðan dag, Toyota og Toro Rosso. Jarno Trulli  og Timo Glock hjá Toyota urðu í fimmta og sjötta sæti og styrku liðið í fjórða sæti í keppni bílsmiða. Sá síðarnefndi hóf keppni í þrettánda sæti og tók aðeins eitt þjónustuhlé. Sebastian Vettel ók og vel og varð sjötti eða í sama sæti og hann hóf kappaksturinn í.

Heimamaðurinn Fernando Alonso byrjaði í 12. sæti og komst strax í ræsingunni fram úr Nakajima hjá Williams. Sá síðarnefndi hægði hins vegar ekki á sér inn að einum fyrstu beygjunum og ók aftan á Renaultinn með þeim afleiðingum að Alonso varð að hætta keppni vegna tjóns á bílnum.

Á sama tíma og litla dótturliðið stóð sig vel, með Vettel í sjötta sæti og Sebastien Bourdais í því tíunda, átti móðurliðið Red Bull afleitan dag. Mark Webber varð tólfti og David Coulthard sautjándi og síðastur.

Úrslit kappakstursins í Valencia

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

Massa á efsta þrepi pallsins í Valencia.
Massa á efsta þrepi pallsins í Valencia. ap
Massa sigrar í Valencia.
Massa sigrar í Valencia. ap
Massa á leið til öruggs sigurs í Valencia.
Massa á leið til öruggs sigurs í Valencia. ap
Räikkönen finnur smugu til að yfirgefa brautina eftir að mótorinn …
Räikkönen finnur smugu til að yfirgefa brautina eftir að mótorinn sprakk. ap
Kubica komst á pall í fyrsta sinn í 10 vikur.
Kubica komst á pall í fyrsta sinn í 10 vikur. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka