Sir Jackie Stewart, fyrrverandi heimsmeistari í formúlu-1 frá Skotlandi, segir að Ferrari og Felipe Massa geti hrósað happi yfir að sitja ekki uppi með meiriháttar refsingu eftir atvik í bílskúrareininni í Evrópukappakstrinum í Valencia.
Massa fór með sigur af hólmi í Valencia en minnstu munaði að til áreksturs kæmi milli þeirra Adrians Sutil hjá Force India á bílskúrasvæðinu.
Dómarar Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) þótti strax ástæða til að meta atvikið með tilliti til hættunnar sem skapaðist en frestuðu ákvörðun þar til keppni væri lokið. Niðurstaða þeirra var að reglur hafi verið brotnar en Massa fékk að halda sætinu og Ferrari sektað fyrir að hleypa honum af stað undir óöruggum kringumstæðum.
„Í mínum huga var þetta lykilstund í kappakstrinum, en ég veit ekki hvort það var ökumaðurinn eða liðið sem mistökin gerði. Í fyrsta lagi skil ég ekki ákvörðun dómaranna því þeir höfðu allar upplýsingar til að fella dóm meðan á keppninni stóð,“ segir Stewart við vikuritið Motorsport Aktuell. Stewart lýsti einnig þeirri skoðun sinni, að „í augum margra“ myndi ákvörðun dómaranna undirstrika „eina ferðina enn að í svona málum er tekið á Ferrari með silkihönskum“.