Þýska umferðarlögreglan gómaði Michael Schumacher fyrir hraðakstur skammt frá uppeldisstöðvum hans í Kerpen í Þýskalandi. Var hann sektaður og sviptur þremur aksturspunktum.
Schumacher var á ferð á Audi blæjubíl, en ekki Ferrari, og fregnir í Þýskalandi gefa til kynna að hann hafi mælst á 140 km/klst hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði var 100 km.
Schumacher er ráðgjafi Ferrari og tilraunaökuþór á stundum. Þá hefur hann verið andlit margskonar aðgerða af hálfu Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í þágu umferðaröryggis, m.a. herferða gegn hraðakstri.
Ítalska íþróttadagblaðið La Gazzetta dello Sport segir að ekki hafi vantað nema eina 7 km upp á að Schumacher hafi misst ökuréttindi sjálfkrafa. Til þess hefði hann þurft að aka á yfir 146 km/klst.
„Mér þykir þetta virkilega leitt, þetta er mér ekki samboðið. Hraðakstur á heima á kappakstursbrautunum eingöngu,“ hefur útbreiddasta blað Þýskalands, Bild, eftir Schumacher um atvikið.