Kubica: Massa líklegastur til að verða heimsmeistari

Robert Kubica hjá BMW er á því að Felipe Massa hjá Ferrari sé líklegastur til að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra í ár. Þá ályktun dregur hann af kröftugri frammistöðu Massa í undanförnum mótum.

Massa er í öðru sæti í stigakeppninni sem stendur, sex stigum á eftir Lewis Hamilton hjá McLaren. Kubica er í fjórða sæti, níu á eftir Massa.  Ferrariþórinn hefur unnið jafn mörg mót í ár og Hamilton, eða fjögur, og er einn af sigurstranglegustu fyrir kappakstur helgarinnar í Spa-Francorchamps í Belgíu.

Massa drottnaði í síðasta móti, Evrópukappakstrinum í Valencia á Spáni; hóf keppni af ráspól og setti hraðasta hring dagsins. Mótið þar áður var hann einnig á góðri leið með að vinna með yfirburðum er mótorinn bilaði þremur hringjum frá endamarki.

Það er þessi kröftuga frammistaða sem verður til þess að Kubica telur Massa sigurstranglegastan í titilkeppninni.

Pólverjinn segir að vegna misjafnrar frammistöðu á undanförnum árum og slæmrar byrjunar á vertíðinni í ár,  sé Massa að einhverju leyti vanmetinn sem ökumaður. Honum hafi hins vegar farið gríðarlega fram og hann standi sig stórvel.

„Fæstir gera sér í raun grein fyrir hversu vel hann stendur sig. Þeir dvelja enn við atvik þar sem honum urðu á mistök og það er erfitt að fá fólk til að skipta um skoðun þegar eitthvað hefur greipst inn hjá því.

„Vissulega gerði hann mikið af mistökum áður og í byrjun ársins. En í undanfarið hefur hann staðið sig mjög vel, er hraðskreiður, mjög stöðugur bæði í tímatökum og keppni. Ég held hann hafi því allt til brunns að bera til að keppa um titilinn og ef til vill vinna hann,“ segir Kubica.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert