Felipe Massa hjá Ferrari tók upp þráðinn frá síðustu mótum og drottnaði í morgun í Spa-Francorchamps, á fyrstu æfingu mótshelgar belgíska kappakstursins. Liðsfélagi hans Kimi Räikkönen ók næsthraðast og keppinautar þeirra hjá McLaren, Lewis Hamilton og Heikki Kovalainen, áttu þriðja og fjórða besta hring.
Massa var hraðskreiðastur lengstan part æfingarinnar sem fram fór á þurrum brautum. Spáð hafði verið rigningu og þótt grámyglulegt væri loftið hélst þurrkur. Massa bætti brautartímann hvað eftir annað.
Um miðbik æfingarinnar setti Räikkönen betri tíma en sat ekki lengi í efsta sæti tímalistans því Massa svaraði fljótt. Bestu tíma sína setti sá brasilíski í lokahringjunum tveimur, en þá ók hann á mýkri dekkjunum sem ökumönnum standa til boða í Spa.
Hamilton var fljótari á fyrsta þriðjungi hringsins en Ferrariþórarnir en gerði hvað eftir annað mistök á öðrum hlutum brautarinnar og varð að gera sér þriðja besta tímann að góðu.
Fernando Alonso á Renault var sá sem komst í tæri við ökumenn toppliðanna tveggja og setti fimmta besta tímann.
Ökumenn Toro Rosso létu að sér kveða en í lok æfingarinnar komst þó fulltrúi móðurliðsins, Red Bull, fram fyrir þá.
Niðurstaða æfingarinnar varð annars sem hér segir: <p>
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Bil | Hri. |
---|---|---|---|---|---|
1. | Massa | Ferrari | 1:47.284 | 26 | |
2. | Räikkönen | Ferrari | 1:47.623 | +0.339 | 26 |
3. | Hamilton | McLaren | 1:47.878 | +0.594 | 27 |
4. | Kovalainen | McLaren | 1:47.932 | +0.648 | 24 |
5. | Alonso | Renault | 1:48.104 | +0.820 | 26 |
6. | Webber | Red Bull | 1:48.428 | +1.144 | 29 |
7. | Bourdais | Toro Rosso | 1:48.557 | +1.273 | 31 |
8. | Vettel | Toro Rosso | 1:48.958 | +1.674 | 24 |
9. | Glock | Toyota | 1:48.997 | +1.713 | 26 |
10. | Piquet | Renault | 1:49.068 | +1.784 | 25 |
11. | Kubica | BMW | 1:49.139 | +1.855 | 25 |
12. | Heidfeld | BMW | 1:49.185 | +1.901 | 26 |
13. | Rosberg | Williams | 1:49.611 | +2.327 | 30 |
14. | Trulli | Toyota | 1:49.625 | +2.341 | 14 |
15. | Coulthard | Red Bull | 1:49.849 | +2.565 | 18 |
16. | Fisichella | Force India | 1:49.986 | +2.702 | 27 |
17. | Sutil | Force India | 1:50.117 | +2.833 | 19 |
18. | Nakajima | Williams | 1:50.125 | +2.841 | 30 |
19. | Button | Honda | 1:50.464 | +3.180 | 25 |
20. | Barrichello | Honda | 1:50.905 | +3.621 | 25 |