Lewis Hamilton hjá McLaren fagnaði vel eftir tímatökurnar sem voru að klárast í Spa-Francorchamps í Belgíu. Vann hann ráspólinn eftir hörku einvígi við Felipe Massa hjá Ferrari á síðasta tímahring. Þriðji varð Heikki Kovalainen hjá McLaren og fjórði Kimi Räikkönen á Ferrari.
Lengst af virtist stefna í að McLarenbílarnir yrðu á fremstu rásröð en á síaðsta tímahring lokalotu tímatökunnar lét Massa kröftuglega til sín taka og bætti tímana á hverju tímasvæði. Sat hann um skeið í efsta sæti en Hamilton kláraði sína lokatilraun 15-20 sekúndum seinna. Bætti hann tíma Massa á öllum tímasvæðunum þremur og hrifsaði ráspólinn til sín.
Kovalainen var fljótastur að lokinni annarri lotu en varð að gera sér þriðja sætið að góðu. Kemur það McLaren vel í keppninni við Ferrari að Kovalainen varð á undan landa sínum Räikkönen.
Nick Heidfeld var í fyrsta sinn í langan tíma öflugri liðsfélaga sínum, Robert Kubica. Að lokum varð hann fimmti og er það í aðeins annað sinn á árinu sem hann hefur keppni framar Kubica á rásmarki.
Fernando Alonso á Renault náði jöfnum og góðum árangri alla tímatökuna og varð að lokum sjötti. Mark Webber hjá Red Bull varð sjöundi eftir að hafa komist áfram í þriðju lotu á síðasta augnabliki. Dregur Red Bull liðið andann léttar eftir erfiða tíma í gær og morgun. Liðsfélagi hans David Coulthard varð aðeins fjórtándi.
Franski ökuþórinn Sebastien Bourdais hjá Toro Rosso er líklega maður dagsins því hann gerði sér lítið fyrir og setti besta tímann í annarri lotu. Slíkum árangri hefur Minardiliðið fyrrverandi aldrei áður náð. Hefur hann keppni í níunda sæti, einu sæti framar en liðsfélagi hans Sebastian Vettel.
Er Webber skaust áfram felldi hann Jarno Trulli hjá Toyota úr leik og sátu því báðar Toyoturnar eftir í annarri lotu. Force India virtist á leið til síns besta tímatökuárangurs er Adrian Sutil náði 14. sæti og Giancarlo Fisichella því sextánda undir lok fyrstu lotu.
En Adam var ekki lengi í paradís því á síðustu stundu komust Timo Glock á Toyota, Webber, Coulthard og Hondaþórarnir fram fyrir þá. Urðu Sutil og Fisichella því í 18. og 19. sæti en milli þeirra á rásmarki situr Kazuki Nakajima á Williams.
Niðurstaða tímatökunnar varð sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Lota 1 | Lota 2 | Lota 3 | Hri. |
1. | Hamilton | McLaren | 1:46.887 | 1:46.088 | 1:47.338 | 12 |
2. | Massa | Ferrari | 1:46.873 | 1:46.391 | 1:47.678 | 16 |
3. | Kovalainen | McLaren | 1:46.812 | 1:46.037 | 1:47.815 | 16 |
4. | Räikkönen | Ferrari | 1:46.960 | 1:46.298 | 1:47.992 | 14 |
5. | Heidfeld | BMW | 1:47.419 | 1:46.311 | 1:48.315 | 18 |
6. | Alonso | Renault | 1:47.154 | 1:46.491 | 1:48.504 | 18 |
7. | Webber | Red Bull | 1:47.270 | 1:46.814 | 1:48.736 | 19 |
8. | Kubica | BMW | 1:47.093 | 1:46.494 | 1:48.763 | 20 |
9. | Bourdais | Toro Rosso | 1:46.777 | 1:46.544 | 1:48.951 | 19 |
10. | Vettel | Toro Rosso | 1:47.152 | 1:46.804 | 1:50.319 | 16 |
11. | Trulli | Toyota | 1:47.400 | 1:46.949 | 13 | |
12. | Piquet | Renault | 1:47.052 | 1:46.965 | 15 | |
13. | Glock | Toyota | 1:47.359 | 1:46.995 | 13 | |
14. | Coulthard | Red Bull | 1:47.132 | 1:47.018 | 15 | |
15. | Rosberg | Williams | 1:47.503 | 1:47.429 | 12 | |
16. | Barrichello | Honda | 1:48.153 | 9 | ||
17. | Button | Honda | 1:48.211 | 9 | ||
18. | Sutil | Force India | 1:48.226 | 9 | ||
19. | Nakajima | Williams | 1:48.268 | 9 | ||
20. | Fisichella | Force India | 1:48.447 | 9 |