Sú flugufregn komst á kreik að tjaldabaki í Spa-Francorchamps í dag, að Fernando Alonso muni segja skilið við Renault í vertíðarlok og ganga til liðs við BMW.
Ítalska sjónvarpsstöðin Sky flutti fréttina við lok belgíska kappakstursins og staðhæfði að samningur BMW við Alonso gilti til þriggja ára.
Í gær skýrði Hondastjórinn Ross Brawn frá því að hann bæði eftir ákvörðun frá Alonso. Við það tækifæri sagði Brawn að Alonso væri besti ökumaður formúlunnar og allir vildu hann til sín, nema ef til vill ekki McLaren.
Sjálfur hefur Alonso ekki viljað tjá sig um orðróm af þessu tagi. „Um margra vikna skeið hef ég sagt að ég myndi ekki velta framtíðinni fyrir mér fyrr en í septemberlok. Það hefur forgang hjá mér að hjálpa Renault til fjórða sætis í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða,“ sagði hann í dag sem stundum fyrr.