McLarenliðið áformar að áfrýja þeirri ákvörðun dómara belgíska kappakstursins að svipta Lewis Hamilton sigrinum. Staðfesti Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) í kvöld, að McLaren hefði tilkynnt sambandinu að það myndi nýta sér rétt til áfrýjunar.
Dómararnir refsuðu Hamilton fyrir að skera beygju í návígi við Kimi Räikkönen um forystu þegar rúmir tveir hringir voru eftir þrátt fyrir að hann hafi hleypt Räikkönen strax aftur fram úr.
Sögðu hann hafa hagnast á því og bættu 25 sekúndum við tíma hans en með því féll McLarenþórinn niður í þriðja sæti.
Áfrýjun McLaren þýðir að það kemur í hlut áfrýjunardómstóls FIA að ákveða hver úrslit belgíska kappakstursins verða.
Ferrariliðið leyndi ekki óánægju sinni með framferði Hamiltons eftir að hann skar hlykkbeygjuna. Sagðist liðsstjórinn Stefano Domenicali ekki í nokkrum vafa um að Hamilton hafi náð forystu á ný vegna þess ávinnings sem hann hafði af því að þvera beygjuna fyrir rásmarkskafla brautarinnar.
Fyrstu fregnir hermdu að Ferrari hafi kært framferði Hamiltons til dómaranna, en talsmenn liðsins staðhæfa að formleg mótmæli hafi ekki átt sér stað af hálfu þess.
Fulltrúar McLaren staðfestu í kvöld, að þeir ættu ekki annarra kosta völ en áfrýja úrskurði dómaranna í Spa. Fyrirliggjandi gögn staðfesti að Hamilton hafi hægt ferðina og hleypt Räikkönen aftur fram úr. Hafi hann verið á 6 km/klst minni hraða er þeir óku yfir marklínuna.
Eftir það hafi Hamilton fært sig um set á brautinni yfir til hægri og síðan unnið sig aftur fram úr á bremsusvæðinu við fyrstu beygju.
Myndband af rimmu Hamiltons og Räikkönen í Spa-FrancorchampsAnnað myndband af rimmu Hamiltons og Räikkönen í Spa-Francorchamps