Þótt Lewis Hamilton hafi tekið við verðlaunum sigurvegara í Spa eru úrslitin óstaðfest, þar sem dómarar kappakstursins ákváðu að taka rimmu þeirra Kimi Räikkönen til rannsóknar.
Með þessu þykja dómararnir hafa sett spurningarmerki við sigur Hamiltons sem náði forystu af Räikkönen í harðri rimmu er rúmir tveir hringir voru eftir í Spa.
Rétt áður byrjaði að hellirigna og á næstsíðasta hring skautuðu báðir út úr brautinni. Hamilton tókst að komast inn á aftur en Ferrarifákur Räikkönens snarsnerist og hafnaði á öryggisvegg.
Áður en Hamilton komst fram úr nudduðu þeir Räikkönen bílum sínum nokkrum sinnum saman. Í átökunum yfirskaut Hamilton svonefndan strætóstöðvarhlykk í lok hringsins og tók síðan fram úr Räikkönen í lok rásmarkskaflans, við La Source-beygjuna, fyrstu beygju hringsins.
Auk þess sem dómararnir ákváðu að taka rimmuna til skoðunar var kappaksturinn vart búinn er Ferrari kærði framferði Hamiltons á lokahringjunum. Ekki liggur frekar fyrir efni kæru Ferrari.
Myndband af rimmu Hamiltons og Räikkönen í Spa-FrancorchampsAnnað myndband af rimmu Hamiltons og Räikkönen í Spa-Francorchamps