Sigur dæmdur af Hamilton

Hamilton getur fátt annað gert en beðið fyrir því að …
Hamilton getur fátt annað gert en beðið fyrir því að úrskurði dómaranna í Spa verði hnekkt. ap

Sigur í kappakstrinum í Spa hefur verið dæmdur af Lewis Hamilton hjá McLaren. Fyrir vikið telst Felipe Massa hjá Ferrari sigurvegari þótt ekki hafi komið fyrstur á mark og Nick Heidfeld hjá BMW annar. Hamilton var dæmdur niður  í þriðja sæti.

Hamilton var refsað fyrir að stytta sér leið gegnum hlykkbeygju í lok hringsins er hann átti í harðri rimmu um forystu við Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Við það komst Hamilton framúr. Hann hleypti Räikkönen hins vegar strax aftur fram úr sér, en ökumenn mega ekki hagnast um sæti með því að skera beygjur.

Strax eftir kappaksturinn kenndi Hamilton raunar Räikkönen um að hann fór út úr brautinni og skar beygjuna. Í næstu beygju komst hann fram úr Räikkönen á ný og fór með sigur af hólmi.

Dómararnir ákváðu að taka rimmuna til skoðunar og Ferrari kærði Hamilton formlega. Verðlaunaafhendingu var samt ekki frestað og tók McLarenþórinn við grip sigurvegara.

Niðurstaða dómaranna var að Hamilton bæri akstursvíti. Var 25 sekúndum bætt við lokatíma hans, eða ígildi aksturs gegnum bílskúrareinina.

Láti McLaren ekki reyna á úrskurðinn með áfrýjun hefur staðan í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna breyst verulega. Í stað þess að Hamilton hafi átta stiga forystu á Massa er munurinn milli þeirra nú aðeins tvö stig, 76:74, McLarenþórnum í hag.

Sömuleiðis eykst forskot Ferrari í keppni bílsmiða úr sex stigum í 12.

Eftir ákvörðun dómaranna er staðan sem hér segir:

Úrslit kappakstursins í Spa-Francorchamps

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

Formúludómarar á hálum ís
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert