Meðal þess sem hin nýju samtök keppnisliðanna í formúlu-1, FOTA, munu taka fyrir á fyrsta fundi sínum, er tillaga um að stytta kappaksturinn, en hann hefur lengi verið að lágmarki 300 km.
Fundur FOTA er ráðgerður í Monza næstkomandi fimmtudag. Að sögn ítalska íþróttadagblaðsins La Gazzetta dello Sport á sú hugmynd að stytta keppnina einhvern hljómgrunn meðal liðsstjóranna.
„Kappakstur í hálfa aðra klukkustund er alltof langur. Við verðum að vinna að því að stytta tímann því oftast gerist ekki neitt á seinni helming hans,“ hefur blaðið eftir liðsstjóra Ferrari, Stefano Domenicali.
Ferrariforstjórinn Luca di Montezemolo mun stýra fundinum í Monza en Hondastjórinn Ross Brawn stýrir tæknisviði FOTA.